Nokkur ráð við frjóofnæmi

Mynd af frétt Nokkur ráð við frjóofnæmi
30.04.2020

Eftir nokkuð harðan vetur, sem einkenndist af vályndum veðrum og farsótt, sjást fyrstu teikn um vorið. Á þessum tíma vaknar gróður eftir vetrardvala og því fylgir óhjákvæmilega aukning á frjókornum sem allt að þriðjungur þjóðarinnar hefur óþægindi af og eru grasfrjó þar langtum algengust. 

Einkenni ofnæmis eru margvísleg og mismikil á milli fólks. Algengust eru nefstíflur og nefrennsli, tárarennsli, kláði í augum og hnerri. Að auki eru astmaeinkenni, hósti og mæði, ekki óalgeng. 

Hvað er til ráða? 

Frjókornatíminn hérlendis er breytilegur frá ári til árs. Einkenni birkiofnæmis koma yfirleitt fram í maí-júní, en grasfrjó byrja oftast að berast í loftið um miðjan júní og fram í ágúst.

Besta meðferðin við frjóofnæmi verður að teljast sú að forðast ofnæmisvakann. Nú hefur þjóðin samviskusamlega haldið sig heima síðustu vikurnar og bíður spennt eftir þurrum og heitum blíðviðrisdögum, en það eru dagarnir þar sem magn frjókorna er hvað mest.

Ýmislegt er hægt að hafa í huga til að lágmarka einkenni: Eftir góðviðrisdaga í grasinu geta frjókornin sest á fötin, húðina og hárið, því getur verið gott að fara í sturtu áður en lagst er til hvílu. Að hafa dyr og glugga lokuð getur reynst hjálplegt og saltvatnsdropar í nef og augu hafa sannað gildi sitt. 

Mörg lyf eru til við einkennum frjóofnæmis og í mörgum tilfellum er hægt að tryggja góða líðan með réttri notkun þeirra. Innan heilsugæslunnar starfar fagfólk sem veitir ráð um ábendingar og notkun. Hægt er að hafa samband í síma 1700 eða í gegnum vefinn www.heilsuvera.is. Eins má hafa beint samband við sína heilsugæslu. Auk þess hafa astma- og ofnæmissamtökin gefið út greinargóðan bækling; Frjóofnæmi, sem er aðgengilegur á vef Samtakanna www.ao.is 

  • Ofnæmistöflur: Við ofnæmi verður mikil losun á efninu histamíni í líkamanum sem veldur m.a. kláða, nefrennsli og hnerra. Ofnæmistöflur eru svokölluð andhistamínlyf og miða að því að hefta virkni histamíns og draga þannig úr einkennum. Margskonar tegundir eru á markaði, bæði með lyfseðli og í lausasölu.
     
  • Nefúðar: Staðbundnir steranefúðar eru góð meðferð við nefstíflum. Hafa ber í huga að verkun þeirra byggist upp á nokkrum dögum og meðferðin krefst daglegrar notkunar. Til að fá sem besta verkun er gott að byrja notkun um tveimur vikum áður en líklegast er að einkenni geri vart við sig, t.d. í byrjun júní við grasfrjóofnæmi og ennþá fyrr við birkifrjóofnæmi. Til viðbótar við steranefúða má nota andhistamínnefúða, en varast skyldi mikla notkun nefúða sem herpa saman æðar í nefi og draga þannig hratt úr nefstíflum. Til langs tíma geta þeir valdið viðvarandi bjúg í nefslímhúð.

  • Augndropar: Innihalda andhistamín og eru hjálplegir við tárarennsli og kláða í augum. Þeir eru oftast notaðir eftir þörfum en má nota daglega. 

  • Steratöflur og -sprautur gegn ofnæmi: Gagnast vissum einstaklingum, þegar önnur meðferð er fullreynd og að vel athuguðu máli. Hafa ber í huga að sterar á þessu formi dreifast um allan líkamann og hafa fjölþættar aukaverkanir s.s. beinþynningu, bælingu á ónæmiskerfi og þar með aukna hættu á sýkingum auk fleira. Því skal gæta varúðar við notkun þeirra. 

  • Frjóofnæmi telst ekki vera alvarlegur sjúkdómur en getur valdið mikilli vanlíðan þegar einkenni eru mikil. Með réttri meðferð er hægt að halda einkennum í skefjum og einstaklingar með frjóofnæmi geta þannig notið blíðviðrisdaganna í sumar, sem allir eiga svo sannarlega skilið. 

 

Ragna Sif Árnadóttir sérnámslæknir í heimilislækningum, Heilsugæslunni Sólvangi í Hafnarfirði

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu