Fleiri samskipti í mars á heilsugæslustöðvum

Mynd af frétt Fleiri samskipti í mars á heilsugæslustöðvum
30.03.2020

Mikil fjölgun hefur verið á samskiptum á heilsugæslustöðvunum okkar í mars vegna COVID-19 faraldursins.

Á meðfylgjandi súluriti eru tölur fyrir fjórar vikur í mars, vikur 10 til 13, og einnig fyrsta vikan í febrúar, vika 6, til samanburðar.

Klínískum samskiptum fjölgar í heild. Viðtölum á heilsugæslustöð fækkar meðan aukning er á símtölum og rafrænum samskiptum á mínum síðum Heilsuveru. 

Það er í samræmi við að reynt er að lágmarka komur á stöð og leysa erindi skjólstæðinga þess í stað símleiðis eða með rafrænum samskiptum.

Rafrænum samskiptum heldur áfram að fjölga í viku 13 en þá fækkar símtölum aðeins miðað við viku 12.

Í mars hefur þjónusta heilsugæslustöðvanna verið endurskipulögð til bregðast við COVID-19 faraldrinum og starfsemin er nú gjörbreytt.

Til dæmis hefur stór hluti starfsmanna unnið heima að hluta til síðustu tvær vikur. Það er vegna þess að starfsmönnum á hverri einingu er skipt upp í tvo hópa sem hittast ekki. Það er til þess að missa ekki alla í sóttkví í einu ef upp kemur smit.

Starfsmenn heilsugæslustöðvanna, stoðdeildir á Skrifstofu HH og aðrir, hafa unnið þrekvirki við krefjandi aðstæður af mikilli ósérhlífni.