Munum eftir handþvottinum

Mynd af frétt Munum eftir handþvottinum
13.02.2020

Nú þegar inflúensan og aðrar sýkingar eru í hámarki í umhverfi okkar er vert að minna okkur á mikilvægi handþvottar. Með góðum handþvotti er hægt að hindra að sýklar berist staða á milli. Það tekur einungis um 30 mínútur fyrir sýkla að dreifast á milli yfirborða og geta hreinar hendur tafið slíka útbreiðslu til muna. Heima og á vinnustöðum er mikilvægt að allir séu meðvitaðir um mikilvægi handþvottar.

Snerting er smitleið

Bein eða óbein snerting er langalgengasta smitleið sýkla milli manna og handþvottur því mikilvægasta og árangursríkasta leiðin til að koma í veg fyrir smit. Örverur og sníkjudýr leynast alls staðar í umhverfi okkar. Sem dæmi má nefna hurðarhúna, handrið og innkaupakerrur. Með snertingu komast þessir sýklar frá öðrum inn í líkama okkar í gegnum munn, nef og augu og geta síðan valdið sýkingu eins og kvefi, inflúensu, niðurgangi og öðrum sýkingum í meltingarfærum eins og nóróveirusýkingu. Á sama hátt getum við borið sýkingu beint eða óbeint frá okkur sjálfum yfir í aðra. En með góðum og reglulegum handþvotti erum við að vernda okkur sjálf og draga úr líkum á að smita aðra.
Eðlilegur bakteríugróður á húð er öllum mönnum nauðsynlegur og er hann hluti af varnarkerfi okkar. Þessum eðlilega bakteríugróðri er gjarnan skipt í annars vegar staðbundinn bakteríugróður sem er í neðri húðlögum og þvæst ekki svo auðveldlega af og hins vegar í flökkugróður en það eru bakteríur og annað smitefni sem kemur á húðina í dagsins önn og þvæst oftast auðveldlega af.

Vel útfærður handþvottur með smá sápu og vatni fjarlægir 90% af því smitefni sem maður getur haft á höndunum og er það ásættanlegur árangur við allar venjubundnar aðstæður. Handspritt er einnig árangursríkt en kemur aldrei í staðinn fyrir góðan handþvott. Við matvælaframleiðslu og við störf á sjúkrahúsum eru hins vegar gerðar meiri kröfur og þá eru gjarnan notuð sótthreinsandi efni til að fjarlægja enn meira af bakteríunum af húð handanna. 

Hendurnar þarf ávallt að þvo með vatni og sápu og þurrka vel: 

 • Eftir klósettferðir 
 • Áður en hafist er handa við matreiðslu 
 • Áður en við borðum 
 • Þegar við komum heim 
 • Eftir að hafa hnerrað eða hóstað í hendurnar 
 • Eftir að hafa farið út með ruslið 
 • Eftir bleiuskipti á ungbarni 
 • Þegar hendurnar eru óhreinar 
 • Eftir að hafa klappað ókunnum dýrum 

Hvernig þvær maður hendur:

 • Taka hringa og skartgripi af.
 • Skola hendur undir rennandi, volgu vatni.
 • Setja smá sápu á hendur, dreifa og nudda hendur í að minnsta kosti 15 sekúndur og passa vel að þvo fingurgóma, naglasvæði, á milli fingra og ekki gleyma þumalfingri.
 • Skola alla sápu af höndum með rennandi vatni.
 • Þurrka hendur vel með pappírsþurrku eða hreinu handklæði.
 • Handklæði mengast fljótt af bakteríum. Því þarf að þvo þau oft.
 • Muna að kranar á almenningssalernum geta verið óhreinir og því er gott að skrúfa fyrir þá með pappírsþurrkunni. 

Munum að við erum fyrirmyndir barnanna okkar og það þarf að kenna þeim að þvo sér um hendur.
Á vefnum heilsuvera.is er hægt að fá góðar upplýsingar um handþvott og smitsjúkdóma.

Kristín Þorbjörnsdóttir, svæðisstjóri og fagstjóri hjúkrunar, Heilsugæslunni Mjódd. 

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu