Litlu og raunhæfu skrefin

Mynd af frétt Litlu og raunhæfu skrefin
06.02.2020
Almenn vitneskja er um góð áhrif hreyfingar og holls mataræðis á andlega sem líkamlega líðan. Fjöldamargar rannsóknir styðja það. Mikil umræða hefur verið í samfélaginu um ýmiss konar mataræði á undanförnum árum. Þar hefur borið hæst ketó, lágkolvetnamataræði, vegan- eða grænmetisfæði og föstur. 
 
Hver finni sína leið
Þrátt fyrir að þetta allt hafi sína kosti er þó ekki svo að eitt henti öllum. Jafnframt hafa rannsóknir sýnt að almennt gengur fólki illa að koma sér af stað og halda sig við strangt mataræði til lengdar. Ekki má heldur gleyma því hvaða áhrif það hefur á andlega líðan að hefja strangt mataræði og gefast upp. Öll þessi boð og bönn sem gjarnan fylgja ströngu mataræði geta haft neikvæð áhrif á líðan og við hvert feilspor upplifir fólk að því hafi mistekist. Í því samhengi er mikilvægt að hver og einn finni sér sína leið í mataræði, leið sem hefur bæði jákvæð áhrif á heilsuna en ekki síður jákvæð áhrif á andlega líðan.
Hið sama má segja um hreyfingu. Eins og fram kom í grein Harðar Björnssonar heimilislæknis í síðustu viku hefur hreyfing óumdeilanlega jákvæð áhrif á líkamlega og andlega heilsu. En hvaða hreyfing er best? Svarið er það sama: Það er einstaklingsbundið. Rannsóknir sýna að hlaup, styrktaræfingar og jóga hafa marktæk áhrif á einkenni þunglyndis en mestu máli skiptir að hreyfa sig reglulega út lífið. Það er ólíklegra að maður haldi sig við hreyfingu sem manni finnst ekki skemmtileg.
 
Raunhæfar áætlanir
Ef þú fyllist óhug í hvert sinn sem þú stígur inn fyrir þröskuldinn á líkamsræktarstöð er hætt við að árskortið þitt verði lítið nýtt. Þá er best að finna sér eitthvað ánægjulegra.
Þegar kemur að lífsstílsbreytingum er mikilvægt að gera raunhæf plön. Höfuðmáli skiptir hvar maður er staddur þann daginn. Ef maður hefur ekki stundað reglulega hreyfingu í fimm ár er raunhæfara að fara í 15 mínútna göngutúr þrisvar í viku en hlaupa 10 kílómetra þrisvar viku. En við eigum það öll til að detta í samanburð við næsta mann eða stöðuuppfærslur og myndbirtingar einstaklinga úti í bæ sem við þekkjum ekki neitt.
 
Þessi samanburður og birtingarmynd reglulegrar hreyfingar getur verið varasöm. Þeir sem hreyfa sig meira en hinn almenni borgari eru gjarnan í þeim hópi sem er mest áberandi í myndum og máli á netinu. Sá hópur verður gjarnan viðmiðið og getur því skekkt viðmið meðalmannsins. Samanburður getur rænt okkur gleðinni, ánægjan yfir eigin afrekum minnkar og því ólíklegra að við endurtökum þessi jákvæðu litlu skref í átt að bættri heilsu. Gott er að hafa í huga að oft þarf lítið til að hafa mikil áhrif. Rannsóknir hafa sýnt að hreyfing í eina klukkustund á viku getur haft marktæk áhrif á geðheilsu.
 
Eflir trú á eigin getu
Reynum að horfa inn á við, byrjum þar sem við erum stödd og setjum okkur lægri en raunhæf markmið varðandi hreyfingu og næringu. Byrjum að ganga áður en við ákveðum að hlaupa, einblínum á að auka markvisst grænmetisneyslu í stað þess að hætta að borða kolvetni. Þessi mörgu litlu skref safnast saman og fara að skipta verulegu máli í heilsu okkar til lengri tíma litið. Á sama tíma bætir það líðan og eflir trú á eigin getu að ná þessum raunhæfu markmiðum og hvetur okkur enn frekar til dáða. 
 
Erik Brynjar Eriksson geðlæknir Geðheilsuteymis HH austur
Íris Björk Ásgeirsdóttir íþrótta- og lýðheilsufræðingur Geðheilsuteymis HH austur
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu