HH tekur þátt í Nightingale áskoruninni

Mynd af frétt HH tekur þátt í Nightingale áskoruninni
23.01.2020

Alþjóða heilbrigðisstofnunin WHO, hefur tilnefnt árið 2020 sem ár hjúkrunar og ljósmóðurfræði í tilefni af 200 ára afmæli Florence Nightingale. WHO og International Council of Nurses hafa einnig staðið fyrir verkefninu „Nursing now“ sem er þriggja ára herferð (2018-2020) ætlað að stuðla að bættri heilsu með því að efla hjúkrun á heimsvísu. 

Lokaátakið í þessari herferð er Nightingale áskorunin sem kemur til framkvæmda 2020.

Markmið Nightingale áskorunarinnar:  
Stuðla að þróun og vexti næstu kynslóðar hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra sem leiðtoga, sérfræðinga og talsmanna heilsu. Auk þess að sýna fram á að hjúkrunarfræði og ljósmóðurfræði eru spennandi og gefandi störf.

Markhópur:
Hjúkrunarfræðingar og ljósmæður 35 ára og yngri.

Verkefnið:

  • Stofnanir skrá sig til leiks og verða þannig aðilar að alheimshreyfingu sem stuðlar að bættu heilbrigði með því að styrkja hjúkrun og ljósmóðurfræði.
  • Stofnunin gerir áætlun um leiðtogaþjálfun hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra 35 ára og yngri.

Verkefnið hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HH)

Um 30-35 hjúkrunarfræðingar og ljósmæður eru í þessum aldurshópi hjá HH og þeim hefur öllum verið boðið að taka þátt í verkefninu.

Í gær var verkefninu ýtt úr vör með fyrsta fundinum  sem Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá HH stýrði.

Á þessum fyrsta fundi var dagskrá ársins kynnt og áhugasvið ungu hjúkrunarfræðinganna rædd. Óskar Reykdalsson forstjóri HH kom og sagði nokkur orð um mikilvægi þessa hóps fyrir stofnunina.

Framundan á árinu er fjölbreytt dagskrá, meðal annars hópefli, fræðsluerindi um teymisvinnu o.fl., starfsdagar á öðum vinnustað innan HH og margt fleira. Það verður gaman að fylgjast með þessu.