HH fær þrjá gæðastyrki

Mynd af frétt HH fær þrjá gæðastyrki
22.01.2020

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra veitti í gær styrki til sjö gæðaverkefna í heilbrigðisþjónustunni. Gæðastyrkir hafa verið veittir árlega frá árinu 2001 en þeir eru fyrst og fremst hugsaðar til að stuðla að umbótastarfi, nýbreytni og auknum gæðum heilbrigðisþjónustunnar og eru þeir ætlaðir sem hvatning og viðurkenning fyrir störf á þessu sviði.

Að þessu sinni fengu verkefni á vegum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HH) þrjá styrki.

Gæðaverkefni á vefnum Heilsuvera.is
Ábyrgðarmaður er Rósíka Gestsdóttir hjúkrunarfræðingur

 • Markmið verkefnisins er að:
  • Bæta upplifun fólks af vefnum
  • Gera leit innan síðunnar markvissari
  • Auka læsileika fyrir blinda og sjónskerta þannig að vefurinn nái að vera meðal þeirra bestu á landinu á því sviði
  • Heilsuvera komi upp í topp þrem sætum í leit á stærstu leitarvélum að algengustu leitarorðunum

Pólsk útgáfa af vefnum heilsugæslan.is
Ensk útgáfa af vefnum heilsugæslan.is

Ábyrgðarmaður er Elín Eiríksdóttir vefstjóri

 • Markmið verkefnanna er að bæta aðgengi að upplýsingum um þjónustu heilsugæslunnar. Þannig viljum við bæta aðgengi fyrir fólk, sem talar ekki íslensku og er jafnvel vant öðru skipulagi á heilbrigðisþjónustu.  Einnig mun þetta hjálpa okkar starfsfólki að útskýra fyrir skjólstæðingum hvað þjónusta er í boði. 
 • Umfang verkefnanna er að allt sem er undir Þjónusta stöðvanna verður þýtt og hluti efnis undir um HH. Síður heilsugæslustöðvanna verða ekki þýddar í heild, heldur einungis ákveðnar grunnupplýsingar og svo tengt í síðu viðkomandi stöðvar í þjónustuvefsjá Heilsuveru. Þær síður er búið að gefa út á ensku og pólsku. Hinsvegar verður einfölduð útgáfa af upplýsingum um sérþjónustustöðvarnar okkar þýddar.

 Að þessu sinni var sérstök áhersla lögð á verkefni sem eru í samræmi við heilbrigðisstefnu til 2030 og/eða tengjast innleiðingu áætlunar Embættis landlæknis um gæðaþróun í heilbrigðisþjónustu 2019-2030. Frestur til að sækja um styrki rann út 18. nóvember sl. og bárust ráðuneytinu 37 umsóknir um styrki vegna fjölbreyttra verkefna. Úthlutunarnefnd skipuð fulltrúum heilbrigðisráðuneytisins lagði mat á umsóknirnar og gerði tillögu til ráðherra um styrkveitingarnar til verkefnanna. Sjö verkefni fengu styrk að upphæð 700 þúsund krónur hvert, samtals 4.900.000 kr.

Auk styrkjanna sem HH fékk voru veittir styrkir til verkefnis á vegum Landspítala um þýðingu og staðfæringu á fræðsluefni fyrir ófaglærða nýliða í öldrunarþjónustu, verkefnis á vegum Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða um verkefnið Namaste á hjúkrunarheimilum, verkefnis á vegum Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, Hornafirði, um öflug samskipti í samþættri þjónustu með hjálp velferðartækni og verkefnis á vegum Sýkla- og veirufræðideildar Landspítala um faggildingu rannsóknarstofu deildarinnar.

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins þakkar veittan stuðning.

Á efri myndinni eru styrkhafar ásamt ráðherra og á myndinni hér fyrir neðan eru frá vinstri Rósíka og Elín.