Reglubundin hreyfing hefur ótvíræða kosti

Mynd af frétt  Reglubundin hreyfing hefur ótvíræða kosti
14.11.2019

Það fer enginn út að ganga bara til að ganga, sagði frændi minn eitt sinn.

Vissulega var það þannig hér áður fyrr að líkamleg hreyfing var svo mikil og almenn að mikilvægara þótti að hvíla sig en að hreyfa sig „án tilgangs“. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þá og kyrrseta almennings orðin áhyggjuefni í þjóðfélaginu vegna slæmra áhrifa hennar á heilsu. Enda vísa rannsóknir til þess að takmörkun kyrrsetu og að stunda reglubundna hreyfingu hafi ótvíræða kosti fyrir almenna heilsu og vellíðan.

Aukið úthald við leik og störf

Mikilvægi hreyfingar nær ekki aðeins til barna og unglinga heldur fólks á öllum aldri. Með hækkandi aldri dregur smám saman úr líkamlegri og andlegri getu og færni minnkar. Með reglulegri hreyfingu hægist á einkennum öldrunar. Andlegur og líkamlegur styrkur eykst sem og þol, liðleiki og jafnvægi. Aukið úthald verður við leik og störf og fólk getur búið lengur heima.

Góðu fréttirnar eru þær að það er aldrei of seint að byrja að hreyfa sig þótt aldur og færni sé misjöfn. Samkvæmt ráðleggingum Landlæknis er eldra fólki ráðlagt að stunda miðlungserfiða hreyfingu að meðaltali 30 mínútur á dag, óháð aldri, færni og heilsu.

Heildartímanum má skipta í nokkur styttri tímabil yfir daginn, til dæmis 10-15 mínútur í senn. Það væri til dæmis hægt að nýta sér morgunleikfimina á Rás 1 kl. 9:45 virka morgna.

Við miðlungserfiða hreyfingu verða hjartsláttur og öndun heldur hraðari en venjulega, sem er gott til að auka þol. Dæmi um slíka hreyfingu er þegar gengið er rösklega, hjólað, synt, gólf skúrað, hengdur upp þvottur, garðvinna, dansað og fleira.

Æfa jafnvægið og minnka kyrrsetu

Til viðbótar við reglulega hreyfingu er sérstaklega gagnlegt fyrir eldra fólk að stunda styrktarþjálfun þar sem hægfara vöðvarýrnun á sér stað með hækkandi aldri. Styrktarþjálfun viðheldur hreyfifærni, stuðlar að auknu gönguöryggi og minnkar fallhættu. Til að minnka fallhættu þarf aukinn vöðvastyrk og samhæfingu, æfa jafnvægið og minnka kyrrsetu.

Hægt er að skoða myndbönd af einföldum styrktaræfingum sem gera má heima á Heilsuvera.is eða fara í tækjasal. Með því að hreyfa sig lengur eða af meiri ákefð er mögulegt að bæta heilsuna enn frekar. Til viðbótar er því æskilegt að eldra fólk stundi erfiða hreyfingu að minnsta kosti tvisvar í viku (20-30 mínútur í senn).

Þeir sem ekki hafa stundað hreyfingu lengi eða eiga erfitt með hana einhverra hluta vegna ættu að kynna sér möguleika hreyfiseðilsins sem fá má hjá heimilislækni eða leita ráðlegginga hjá öðru fagfólki. Almennt er mikilvægt að fara rólega af stað og auka síðan smám saman við álagið eftir því sem getan eykst. Í mörgum bæjarfélögum er boðið upp á leikfimi fyrir eldra fólk og víða eru gönguhópar og sundtímar sérstaklega miðaðir fyrir þennan aldurshóp auk þess sem mörg íþróttahús eru opin til að ganga í. Það er um að gera að kynna sér hvað er í boði í þínu nærumhverfi og koma sér í hópinn. Ekki er verra að vera í góðum félagsskap og hlúa þannig einnig að félagslegri virkni og vellíðan. Rétt er að minna á að við vetraraðstæður geta hálkan og snjórinn orðið varhugaverð og því mikilvægt að huga að hálkuvörn

Sigrún K. Barkardóttir, hjúkrunarfræðingur og svæðisstjóri heimahjúkrunar Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í Hafnarfirði, Garðabæ og Kópavogi