Þarf ég sýklalyf í kvefpest?

Mynd af frétt Þarf ég sýklalyf í kvefpest?
05.09.2019

Undanfarin misseri hefur oft verið minnst í fjölmiðlum á þá ógn sem stafar af bakteríum sem sýklalyf bíta ekki á. Bent hefur verið á að óskynsamleg notkun sýklalyfja sé ein meginástæða fjölgunar þessara baktería. Sýkingum af völdum slíkra baktería hefur fjölgað ört undanfarin ár í heiminum og í Evrópu og Bandaríkjunum einum saman deyja nú árlega ríflega hundrað þúsund manns af þeim sökum.

Vinna eingöngu á bakteríum 

Til að stemma stigu við þessari ógnvænlegu þróun er afar mikilvægt að almenningur og heilbrigðisstarfsfólk taki höndum saman við að stuðla að skynsamlegri notkun sýklalyfja.
Því er ekki úr vegi, nú þegar kvefpestirnar fara að banka á dyrnar hjá okkur, að staldra aðeins við og velta fyrir sér hvenær eigi ekki að grípa til sýklalyfja.

Langstærstur hluti loftvegasýkinga sem herja á landann, eins og kvef, hálsbólgur, berkjubólgur og ennis- og kinnholubólgur sem dæmi, eru af völdum sýkils sem kallast veirur. Hefðbundin sýklalyf gera ekkert gagn þegar um veirusýkingar er að ræða enda vinna þau eingöngu á bakteríum. Meðferð við veirusýkingum er fyrst og fremst fólgin í því að fara vel með sig á meðan líkaminn læknar sig sjálfur. Holl ráð um hvað maður getur gert sjálfur til að bæta líðan meðan veikindin ganga yfir er að finna á upplýsingavefnum www.heilsuvera.is.

Einnig er mikilvægt að átta sig á því að einkenni veirusýkingar geta varað allt frá örfáum dögum upp í margar vikur og getur vægt kvef verið dæmi um veirusýkingu sem gengur hratt yfir en berkjubólga dæmi um veirusýkingu sem oft getur tekið jafnvel sex vikur að verða góður af.

Síðastliðin ár hefur verið markvisst unnið að því innan heilsugæslunnar að stuðla að skynsamlegri ávísun sýklalyfja. Þetta starf hefur skilað umtalsverðum árangri og á þeim stöðvum þar sem hvað mest vinna hefur verið lögð í þetta hefur notkun ákveðinna breiðvirkra sýklalyfja dregist saman um allt að 70% árið 2018 miðað við árið 2016.

Við Íslendingar eigum þó enn langt í land með að ná þeim skynsamlegu markmiðum sem nágrannaþjóðir okkar hafa sett sér varðandi ávísanir sýklalyfja. Árangur þeirra er okkur innblástur að halda áfram á þeirri vegferð sem við erum á enda hlýtur markmið okkar að vera að nota þetta mikilvæga lækningatæki skynsamlega og rétt. Annars er hættan sú að komandi kynslóðir sitji eftir með sárt ennið, varnarlausar gagnvart algengum bakteríusýkingum eins og lungnabólgum og húðsýkingum sem fyrr á öldum voru dauðadómur og eiga á hættu að verða það aftur. 

Holl heimaráð

Vonandi er þér ljóst, lesandi góður, að í langsamlega flestum tilvikum þarf ekki og á ekki að notast við sýklalyf við kvefpestum. Hægt er að mæla með hvíld og hollum heimaráðum á heilsuvera.is Þó er gott að hafa í huga eftirfarandi þumalputtareglu: ef einkenni versna skyndilega mikið þegar þau hafa verið skánandi er skynsamlegt að leita til heilsugæslunnar að fá mat á stöðunni og ráðleggingar, eins og við á hverju sinni.

Steinar Björnsson heimilislæknir Heilsugæslunni Efstaleiti

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu