Málþing um byltuvarnir 17. september

Mynd af frétt Málþing um byltuvarnir 17. september
23.08.2019

Þann 17. september 2019 verður haldið Málþing um byltuvarnir í Hringsal Landspítala við Hringbraut

Málþingið er þverfaglegt og opið öllum. Það er ekkert þátttökugjald en tilkynna þarf þátttöku í síðasta lagi 10. september, því sætaframboð er takmarkað. 

Byltur og afleiðingar þeirra er ein af ástæðum lélegra heilsufars á meðal aldraðra. Hrörnunarbreytingar tengdar auknum aldri hafa fundist í öllum líkamskerfum sem koma að stjórn jafnvægis og eftir því sem þær ágerast eykst óstöðugleiki og líkur á byltum. Margir áhrifaþættir eru til staðar þegar kemur að byltum til að mynda hreyfingarleysi, saga um fyrri byltur, vannæring, heilabilun, fjöldi lyfja og hættur í umhverfi.

Vandamálið er margþætt og brýn þörf er á að kortleggja byltur á meðal aldraðra með því að fjalla um byltur á sem þverfaglegastan hátt. Von skipuleggjenda er því sú að málþingið leiði af sér hugmyndir að fyrirbyggjandi aðgerðum og að byltur fái tilskylda athygli á samfélagsgrundvelli.

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins (HH) kemur að málþinginu ásamt fleiri aðilum. Meðal fyrirlesara eru starfsmenn HH, Anna Ólafsdóttir og Jón Steinar Jónsson, sem munu fjalla um byltuverkefni hjá heilsugæslunni.