Góður svefn og betri heilsa

Mynd af frétt Góður svefn og betri heilsa
15.08.2019

Nú þegar styttist í veturinn og skólar hefjast fara margir að huga að því að koma reglu á heimilislífið eftir sumarleyfi og ferðalög. Það hendir flesta að slaka á svefntímanum yfir bjartasta árstímann á Íslandi. Mörgum finnst tímanum illa varið í svefn og vilja nota sem stærstan hluta sólarhringsins til að njóta lífsins. Á góðæristímum eins og nú fara í hönd hefur fólk líka tilhneigingu til að sofa minna en á samdráttartímum. Til að mynda svaf tæplega einn af hverjum þremur fullorðnum Íslendingum að jafnaði sex klukkustundir eða minna á nóttu á síðastliðnum árum, skv. upplýsingum frá Embætti landlæknis.

Nægur svefn er vernd gegn þunglyndi

Það kemur sífellt betur í ljós hversu mikilvægt er að tryggja sér nægilega langan og góðan nætursvefn. Það kemur ekki aðeins fram í betri einbeitingu að deginum heldur betra heilsufari til lengri tíma. Sofi fullorðinn einstaklingur að jafnaði 7-8 klst nætursvefni eru minni líkur á að hann fái hjartasjúkdóma, sykursýki, háþrýsting, krabbamein eða alzheimer-sjúkdóm síðar á lífsleiðinni. Hann hefur sterkara ónæmiskerfi og nægur svefn verndar einstaklinginn líka fyrir þunglyndi. Dagsyfja vegna ónógs svefns veldur ekki einungis einbeitingarskorti heldur getur hún valdið því að fólk borðar meira og þyngist. í þessu samhengi má líka benda á að ein algengasta orsök umferðarslysa er að ökumenn sofna undir stýri.

Fyrir börn og unglinga er enn mikilvægara að þau fái nægan svefn þar sem líkaminn framleiðir vaxtarhormón að mestu á meðan þau sofa. Þessi hormón stýra vexti þeirra og þroska. Börn þurfa á mislangri hvíld að halda eftir aldri:Yngstu börnin þurfa allt að 10-12 klukkustunda nætursvefn, skólabörn á aldrinum 6-12 ára þurfa að minnsta kosti 10 klukkutíma svefn og unglingar þurfa oftast að sofa 8-10 klukkutíma nætursvefni.

Svefnlyf trufla mynstrið

Til að tryggja sér góða hvíld er mikilvægt að venja sig á góðar svefnvenjur. Flestir sofa betur í dimmu og svölu herbergi. Líkamsrækt og öll hreyfing stuðlar að betri svefni þótt ekki sé gott að vera i ræktinni seint að kvöldi.

Birtan af snjalltækjum, tölvum og sjónvarpi getur truflað svefn og ætti að slökkva á þeim 1-2 klukkustundum fyrir háttatíma. Koffínneysla seinni hluta dags getur truflað svefn og áfengisneysla veldur lakari svefni.

Þrátt fyrir að svefnleysi þjaki fólk tímabundið er sjaldan ráðlegt að nota svefnlyf nema í mjög skamman tíma. Svefnlyf eiga það sameiginlegt að þau trufla svefnmynstrið. Þau verða fljótt gagnslaus og geta orðið skaðleg. Neysla áfengis til að vinna á svefnleysi gerir meiri skaða en gagn.

Leitað að orsökum svefntruflana

Ef einstaklingur telur sig glíma við óeðlilegar eða langvinnar svefntruflanir er nauðsynlegt að leita betur eftir undirliggjandi orsökum. Þær geta verið margvíslegar: Áhyggjur, álag, verkir, aukaverkanir lyfja, sjúkdómar svo sem kæfisvefn og fótaóeirð svo fátt sé nefnt. Sjálfsagt er að ræða slík einkenni við heilbrigðisstarfsfólk á heilsugæslunni og fá ráðleggingar.

Fyrst og fremst hvetjum við alla til að huga að því að tryggja sér góðan nætursvefn. Við hvetjum alla til að koma sér saman um kvöldvenjur sem miða að því að hvílast vel alla daga vikunnar en geymi það ekki til helganna.

Fyrir frekari upplýsingar og góð ráð fyrir svefninn bendum við á pistla um svefn og hvíld á vefnum heilsuvera.is.

Nanna Sigríður Kristinsdóttir svæðisstjóri og fagstjóri lækninga, Heilsugæslunni Efra Breiðholti

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu