Sólin sendir orku en getur verið skaðleg

Mynd af frétt Sólin sendir orku en getur verið skaðleg
18.06.2019

Sólin er það fyrirbæri sem gerir okkur mögulegt að lifa hér á jörðinni. Hún yljar okkur, sendir okkur orku, birtu og þegar hún skín á húðina framleiðir húðin D-vítamín sem er okkur nauðsynlegt. En sólin getur líka brennt. Húð hefur náttúrulega vörn gegn geislum sólarinnar sem hún byggir upp smám saman þegar við erum úti í sólinni. Húðin dökknar og það veldur því að
við þolum sólina lengur. Húð fólks er mismunandi með tilliti til þess hversu hætt því er við sólbruna.

Gjarnan er tala um fjórar húðgerðir:

  • Ljós/hvít húð - það er norrænt fólk, sem er með ljóst og rautt hár, sem hættir til að brenna. Hér er um að ræða norrænt fólk sem er með ljóst eða rautt hár.
  • Ljósbrún húð; hér á í hlut fólk sem verður brúnt án þess að brenna í hóflegri sól. Þetta er dökkhært fólk sem upplifir sig ekki viðkvæmt fyrir sólinni.
  • Brúngul húð: fólk sem þolir sól vel og er frá Asíu og Mið- og Suður-Ameríku.
  • Dökkbrún húð: fólk frá Afríku og Suður-Asíu sem þolir sól mjög vel og brennur sjaldan.

Framangreint á við um fullorðna. Húð barna er viðkvæmari fyrir sól og ungbörn með ljósa eða ljósbrúna húð ættu aldrei að vera óvarin úti í sól.

Á heitum sólríkum dögum er einnig möguleiki á að skaða augun, ofhitna og ofþorna. Þá skiptir ekki máli hvernig húðgerðin er. Börnum er sérlega hætt við þessum fylgikvillum sólarinnar.

Útfjólublá geislun

Það eru útfjólubláir geislar sólar sem geta skaðað húðina. Talað eru um UV stuðul og er hann á skalanum frá 0 og upp í 10. Á vefsíðunni uv.gr.is er sívöktun á útfjólublárri geislun. Þar má sjá hver geislunin er í Reykjavík og á Egilsstöðum.

Aðferðir til að verjast skaðlegum geislum sólarinnar

  • Besta leiðin er að klæðast ljósum, léttum fötum á heitum sólardögum og gleyma ekki sólhatti ef menn eru langtímum saman úti.
  • Best er að vera á hreyfingu í sólinni. Verst er að liggja kyrr og láta sólina skína stöðugt á sama hluta líkamans.
  • Nota sólgleraugu sem eru CE merkt með breiðum örmum.
  • Nota sólkrem eftir þörfum.

Af hverju að forðast sólbruna?

Fyrir utan það hversu sársaukafullt og leiðinlegt er að sólbrenna þá er sterkt samband á milli þess að brenna í sólinni og fá húðkrabbamein síðar á ævinni.

Greinilegt samband er á milli þess að sólbrenna sem barn og að fá sortuæxli síðar á ævinni. Sérstaklega þarf því að gæta þess að börnin okkar sólbrenni ekki.

Nánar má lesa um börnin og sólina, sólkrem og viðbrögð við sólbruna á heilsuvera.is.

Ef sólbruni er mikill eða útbreiddur tekur starfsfólk heilsugæslunnar vel á móti þér og aðstoðar þig við meðhöndlun brunans. Hikaðu ekki við
að hafa samband eða koma, við erum hér fyrir þig.

Margrét Héðinsdóttir hjúkrunarfræðingur

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu