HH er nú aðili að Heilsueflandi samfélagi í Reykjavík

Mynd af frétt HH er nú aðili að Heilsueflandi samfélagi í Reykjavík
14.06.2019

Lýðheilsuvísar Reykjavíkurborgar voru kynntir í fyrsta sinn í síðustu viku. Þeir byggja á lýðheilsuvísum Embættis landlæknis en til viðbótar hefur borgin skilgreint fleiri vísa sem snúa m.a. að skipulagi, samgöngum og loftslagi.

Við sama tækifæri var fyrra samkomulag um Heilsueflandi samfélag í Reykjavík, frá árinu 2013 endurnýjað. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Sigríður Dóra Magnúsdóttir framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Alma D. Möller landlæknir undirrituðu samning þess efnis.

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins (HH) kemur ný inn í þetta samstarf og fagnar möguleikunum sem verkefnið býður uppá. Einstakar heilsugæslustöðvar HH hafa áður tekið þátt í Heilsueflandi samfélagi í sínu nærumhverfi.

Markmið Heilsueflandi samfélags er að vinna með markvissum hætti að því að skapa umhverfi og aðstæður sem stuðla að heilbrigðum lifnaðarháttum, heilsu og vellíðan allra íbúa. Í slíku samfélagi er heilsa og líðan íbúa í fyrirrúmi í stefnumótun og aðgerðum á öllum sviðum. Með innleiðingu Heilsueflandi samfélags vinna sveitarfélög einnig að innleiðingu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.

Á myndinni eru frá vinstri: Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Alma D. Möller landlæknir og Sigríður Dóra Magnúsdóttir framkvæmdastjóri lækninga hjá HH