Óskar Reykdalsson skipaður forstjóri HH

Mynd af frétt Óskar Reykdalsson skipaður forstjóri HH
29.03.2019
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að skipa Óskar Reykdalsson forstjóra Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins til fimm ára.

Óskar er sérfræðingur í heimilislækningum og hefur lokið meistaragráðu í stjórnun heilbrigðisþjónustu. Óskar hefur mikla og góða þekkingu á sviði lýðheilsu og er með langa reynslu af stjórnunarstörfum á sviði heilbrigðisþjónustu.

Óskar hefur fjölbreytta reynslu og víðtæka þekkingu á  íslensku heilbrigðiskerfi. Hann hefur starfað sem læknir og stjórnandi á mismunandi sviðum heilbrigðisþjónustunnar á landsbyggðinni, Landsspítalanum, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og í Velferðarráðuneytinu. Þá hefur hann enn fremur unnið að fjölda verkefna tengdum rekstri og stefnumótun innan heilbrigðiskerfisins.

Óskar vann sem sérnámslæknir og sérfræðingur í heimilislækningum í Svíþjóð og hefur sú starfsreynsla víkkað sjóndeildarhring hans enn frekar.

Í umsögn hæfnisnefndar segir að Óskar hafi góða yfirsýn yfir störf ólíkra stétta innan heilbrigðisþjónustunnar og áhuga á eflingu þverfaglegs samstarfs í þágu gæða kerfisins í heild. Hann hefur ríkulega innsýn í stöðu stofnunarinnar og skýra sýn á hlutverk hennar og stefnu.
 

Við bjóðum Óskar velkominn til áframhaldandi starfa hjá HH.