Fjölhæfir læknar sem leysa úr flestum vandamálum

Mynd af frétt Fjölhæfir læknar sem leysa úr flestum vandamálum
14.02.2019

Í dag eru 49 læknar í sérnámi í heimilislækningum á Íslandi, 16 á landsbyggðinni og 33 á höfuðborgarsvæðinu. Vonandi bera heilbrigðisstofnanir og stjórnvöld gæfu til að halda áfram að styðja og styrkja framhaldsnám í heimilislækningum og stuðla þannig að farsælli framtíð heilsugæslunnar. 

Heilsugæslan á Íslandi er eitthvað sem við Íslendingar tökum sem sjálfsögðum hlut og það er kannski einmitt eins og það á að vera. Langflestir eru sammála um að réttur til heilsugæslu eigi að vera fyrir alla, alltaf og alls staðar og hún greidd úr sameiginlegum sjóðum.

Uppbygging frá um 1970

Á síðustu áratugum höfum við byggt upp heilbrigðiskerfið hérlendis m.a. með uppbygging heilsugæslunnar sem hófst um og eftir 1970. Ungir og áhugasamir læknar fóru í sérnám til útlanda til að verða heimilislæknar og á landsbyggðinni voru byggðar heilsugæslustöðvar af myndarskap. 

Uppbygging heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu var hægari og árum saman voru ekki til stöður á höfuðborgarsvæðinu fyrir heimilislækna sem voru að ljúka námi og vildu koma heim. Þannig var skortur á mannskap á tímabilum ekki endilega vegna þess að heimilislæknar voru ekki til heldur líka vegna þess að það voru ekki til stöður og tregða til að fjölga þeim enda kostar alltaf að bæta í heilbrigðisþjónustu. Hvort þetta ástand dró úr áhuga ungra lækna á heimilislækningum er sennilega ofureinföldum og ástæðurnar fyrir of fáum heimilislæknum á Íslandi örugglega fleiri og flóknari. 

Ætti að vera grunnstoð

Umhugsunarvert er af hverju við leggjum ekki meiri áherslu á að reyna að fjölga heimilislæknum á Íslandi. Við vitum að heilbrigðiskerfi með sterka frumþjónustu og heilsugæslu farnast venjulega betur bæði hvað varðar árangur og kostnað. Sterk heilsugæsla ætti því að vera grunnstoð heilbrigðisþjónustunnar og sterk heilsugæsla verður ekki til nema með góðri mönnun vel menntaðra heimilislækna að öðrum starfsstéttum ólöstuðum. 

Í heimilislækningum er lögð áhersla á að heilsugæslan og heimilislæknirinn séu að jafnaði fyrsti viðkomustaður í heilbrigðiskerfinu. Heimilislæknar eru fjölhæfir læknar sem geta leyst úr flestum vandamálum sem upp koma en leggja þess utan mikla áherslu á heilsuvernd. Heimilislæknar þekkja venjulega vel til skjólstæðinga sinna og fylgja oft fjölskyldum í gegnum gleði og sorg og þau kynni leiða til samfellu og þekkingar sem kemur að góðum notum þegar þarf að sinna jöfnum höndum bráðum og langvinnum heilsuvanda. Heimilislæknar leitast einnig við að leiðbeina skjólstæðingum sínum, þurfa oft að samhæfa eftirlit og meðferð í samstarfi við annað fagfólk og því er samvinna við aðra sérfræðilækna, hjúkrunarfræðinga og annað heilbrigðisstarfsfólk mjög mikilvæg til að tryggja viðeigandi þjónustu. 

Þekking, færni og skilningur

Heimilislæknar á Íslandi eru með langt nám að baki, 6 ára háskólanám í læknadeild og síðan tekur við kandídatsár, það er að minnsta kosti eins árs starfsnám sem kandídat og loks 5 ára framhaldsnám og sérhæfing í heimilislækningum. 

Í framhaldsnámi í heimilislækningum eru uppi kröfur um þekkingu, færni, viðhorf og skilning á heimilislækningum. Námið er að mestu starfsnám sem fer fram í heilsugæslunni sem og á sjúkrahúsum og auk þess er hluti námsins fræðilegur og einnig er krafa um rannsókna- eða gæðaverkefni. Hér áður fyrr þurftu ungir læknar að sækja sér framhaldsmenntun í heimilislækningum erlendis. Síðustu tvo áratugi hefur byggst upp sérnám hérlendis að fyrirmynd nágrannaríkja og eins og svo oft höfum við Íslendingar nýtt okkur þekkingu og kosti vestan hafs og austan og skipulagt nám sem er með því besta sem þekkist á Norðurlöndum og víðar. 

Tækifæri til þjálfunar

Heilsugæslan gegnir mikilvægu hlutverki í að mennta sérnámslækna í heimilislækningum auk þess að taka þátt í menntun nýútskrifaðra lækna á svokölluðu kandídatsári og einnig læknanema, hjúkrunarfræðinema og ljósmæðranema. 

Öllum þessum nemum er venjulega mjög vel tekið af skjólstæðingum og starfsfólki heilsugæslunnar, mikill skilningur á mikilvægi tækifæra til þjálfunar og einnig er afar ánægjulegt og gefandi að stuðla að þroska ungs fólks í námi.

Elínborg Bárðardóttir, umsjónarmaður sérnáms í heimilislækningum við Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu