Pistill forstjóra - Nóvember 2018

Mynd af frétt Pistill forstjóra - Nóvember 2018
23.11.2018
Í byrjun mánaðarins voru Fræðadagar Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins haldnir, þeir tíundu í röðinni hingað til og var yfirskrift daganna að þessu sinni, Listin að eldast vel: alla ævi. Fjölmargir fyrirlesarar, innan og utan HH, deildu reynslu sinni, þekkingu og niðurstöðum rannsókna og eiga þeir miklar þakkir skildar. Það er hverri stofnun sómi að eiga slíkan vettvang sem Fræðadagarnir eru og gaman að sjá hve vel sóttir þeir eru ár eftir ár. Ráðstefnan tókst í alla staði vel og er skipulagsnefnd Fræðadaga færðar bestu þakkir fyrir glæsilegan viðburð.

Hjá HH starfa nú um 700 manns, en fjölgað hefur í starfsmannahópnum í takt við aukin og ný verkefni á síðustu árum. Öllu nýju starfsfólki er boðið á nýliðanámskeið, en þau eru haldin þrisvar til fjórum sinnum á ári. Á námskeiðunum er farið yfir hlutverk, stefnu og gildi HH, vinnuumhverfið ýtarlega kynnt, sem og helstu áherslur í starfsemi HH. Hópurinn sem sótti nýliðafræðsluna núna í nóvember var óvenju fjölmennur eða um 30 manns úr öllum starfshópum.  Þessi stóri nýliðahópur er til marks um þá miklu grósku sem er innan HH. Við bjóðum nýtt starfsfólk HH innilega velkomið til starfa og óskum þeim öllum heilla í starfi.     

Vinna við innleiðingu jafnlaunastaðals hefur verið í gangi frá sumarlokum.  Verkefnið er bæði flókið og umfangsmikið og þarfnast mikils undirbúnings, en þess er vænst að hægt verði að ljúka því um mitt næsta ár. Stofnunum með fleiri en 250 starfsmenn hefur verið veittur frestur til ársloka 2019 til að öðlast jafnlaunavottun.

Innleiðing nýrrar persónuverndarlöggjafar er hafin og hefur persónuverndarfulltrúi verið skipaður. Persónuverndarfulltrúi HH mun svara erindum og fyrirspurnum vegna vinnslu persónuupplýsinga og hefur sérstakt póstfang verðið stofnað, hvert beina má erindum og fyrirspurnum. Persónuverndarfulltrúi HH mun aðstoða við innleiðingu löggjafarinnar hjá HH, en ætla má að verkefnið muni taka sex til átta mánuði í innleiðingu.

Nýlega voru tveir nýir stofnanasamningar undirritaðir. Annars vegar var undirritaður stofnanasamningur við Ljósmæðrafélag Íslands, en sá samningur tók gildi frá og með 1. ágúst sl. Hins vegar var undirritaður stofnanasamningur við Sjúkraliðafélag Íslands, en í þeim samningi fá sjúkraliðar viðbótarþrep vegna  80 kennslustunda símenntunar og kemur sú viðbót inn frá og með 1. júní sl. Nýundirritaðir stofnanasamningar eru liður í að bæta starfsumhverfi þessara mikilvægu starfshópa og að þeir njóti verðskuldaðrar viðurkenningar fyrir störf sín.   

Í vikunni var Geðheilsuteymi HH vestur formlega opnað í glæsilegum húsakynnum að Skúlagötu 21 að viðstöddum fjölda gesta. Teymið mun þjónusta íbúa á Seltjarnarnesi og íbúa Reykjavíkur að Elliðaám í austri og eru á þjónustusvæði þess sex starfandi heilsugæslustöðvar. Núna eru sex starfsmenn í  teyminu, hjúkrunarfræðingar, geðlæknir, sálfræðingur og þjónustufulltrúi. Teymið er ekki fullmannað að svo stöddu, en við treystum því að svo verði frá og með næsta ári. Geðheilsuteymi HH vestur mun þjónusta einstaklinga, 18 ára og eldri, sem greindir eru með geðsjúkdóma og þurfa á þverfaglegri aðstoð ásamt þéttri eftirfylgd að halda. Stofnun Geðheilsuteymis HH vestur er sérstakt fagnaðarefni og er liður í að samhæfa þjónustu og auka jafnræði gagnvart íbúum á höfuðborgarsvæðinu. Við óskum starfsfólki teymisins góðs gengis í sínum metnaðarfullu störfum.  

Gangi okkur öllum vel í dagsins önn.

Svanhvít Jakobsdóttir

Ábyrgð – Fagmennska – Traust – Þjónusta – Framþróun