Breytingar á stöðum fagstjóra hjúkrunar

Mynd af frétt Breytingar á stöðum fagstjóra hjúkrunar
01.10.2018

Breytingar hafa orðið á stöðum fagstjóra hjúkrunar í Heilsugæslunni Hlíðum og Miðbæ í haust í kjölfar þess að Eva Kristín Hreinsdóttir lét af starfi fagstjóra hjúkrunar í Heilsugæslunni Hlíðum.

Eva Kristín Hreinsdóttir – nýr verkefnastjóri á skrifstofu framkvæmdastjóra hjúkrunar

Í haust flutti Eva Kristín sig yfir á skrifstofu framkvæmdastjóra hjúkrunar þar sem hún mun starfa við innleiðingu á heilsuvernd aldraðra í heilsugæslustöðvum HH. Hún mun auk þess starfa áfram Í Hlíðum í hlutastarfi sem verkefnastjóri. Eva Kristín gengdi starfi fagstjóra hjúkrunar í Heilsugæslunni Hlíðum frá árinu 2016 og var áður yfirhjúkrunarfræðingur á sömu stöð frá árinu 2007. Hún hóf störf við Heilsugæsluna Hlíðum árið 1998 sem almennur hjúkrunarfræðingur og hafði þá áður starfað m.a. við heimahjúkrun, á hjúkrunarheimili í Kaupmannahöfn og á gjörgæsludeild og brjóstholsskurðdeild LSH.

Anna Ólafsdóttir - nýr fagstjóri hjúkrunar Heilsugæslunni Hlíðum

Anna Ólafsdóttir hefur verið ráðin sem fagstjóri hjúkrunar í Heilsugæslunni Hlíðum til næstu fimm ára. Anna hefur starfað sem fagstjóri hjúkrunar í Heilsugæslunni Miðbæ frá 1. september 2016 en flytur sig yfir í Heilsugæsluna Hlíðum frá og með 1. september 2018. Anna starfaði sem almennur hjúkrunarfræðingur í Heilsugæslunni Miðbæ frá árinu 2011. Fyrir þann tíma hafði hún starfað í Heilsugæslunni Seltjarnarnesi, Hjartadeild Landspítala og  Hjartavernd.

Hafdís Ólafsdóttir – nýr fagstjóri hjúkrunar Heilsugæslunni Miðbæ

Hafdís Ólafsdóttir hefur verið ráðin fagstjóri hjúkrunar í Heilsugæslunni Miðbæ til fimm ára  frá og með 1. september 2018.  Hafdís hefur starfað í Heilsugæslunni Miðbæ frá árinu 2011 sem verkefnastjóri í ung- og smábarnavernd. Hún hefur verið staðgengill fagstjóra hjúkrunar á stöðinni frá árinu 2015. Áður starfaði hún á ýmsum deildum innan LSH sem almennur hjúkrunarfræðingur og vaktstjóri.

Við bjóðum þær Evu, Önnu og Hafdísi velkomnar til áframhaldandi starfa hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.