Opnað fyrir tilvísanir á nýtt geðheilsuteymi um miðjan september

Mynd af frétt Opnað fyrir tilvísanir á nýtt geðheilsuteymi um miðjan september
10.09.2018

Gert er ráð fyrir að 17. september næstkomandi verði byrjað að taka við tilvísunum á nýtt geðheilsuteymi fyrir íbúa á mið- og vestursvæði höfuðborgarinnar sem nú er að hefja starfsemi á vegum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HH).

Nýja teymið, Geðheilsuteymi HH vestur, er til húsa að Skúlagötu 21 og er stofnun þess liður í að auka geðheilbrigðisþjónustu á höfuðborgarsvæðinu. Fyrir er starfandi geðheilsuteymi fyrir austurborgina, Geðheilsuteymi HH austur  og á næsta ári er á stefnt að stofnun geðheilsuteymis fyrir suðursvæði höfuðborgarsvæðisins. 

Hrönn Harðardóttir teymisstjóri, hefur unnið að undirbúningi hins nýja teymis undanfarna mánuði. Hún segir fyrstu starfsmennina hefja störf í byrjun september en gert er ráð fyrir að í fullskipuðu teymi muni starfa 10-12 manna þverfaglegur hópur geðlæknis, geðhjúkrunarfræðinga, sálfræðings, félagsráðgjafa, iðjuþjálfa, fjölskyldumeðferðarfræðings og heilsuráðgjafa auk fulltrúa notenda.

Geðheilsuteymi HH vestur mun taka yfir starfsemi Geðheilsu- eftirfylgdar sem rekin hefur verið af Heilsugæslunni undanfarin ár. Þeim einstaklingum sem voru í Geðheilsu-eftirfylgd og sem metnir voru í þörf fyrir áframhaldandi þjónustu hefur verið boðin þjónusta hins nýja geðheilsuteymis.

Þjónusta Geðheilsuteymis HH vestur verður einstaklingsmiðuð og byggir á því að valdefla notendur og að styðja þá í eigin bataferli. Gerður verður meðferðarsamningur fyrir hvern og einn þar sem notandi og fagaðili koma sér saman um innihald þjónustunnar. 

Aðsetur Geðheilsuteymis HH vesturs er á Skúlagötu 21.