Pistill forstjóra - apríl 2018

Mynd af frétt Pistill forstjóra - apríl 2018
23.04.2018

Síðastliðið haust var opnað formlega fyrir þekkingar- og uppflettihluta Heilsuveru sem bættist við þann hluta Heilsuveru sem m.a. gefur fólki færi á að bóka tíma hjá lækni, skoða bólusetningar, óska eftir endurnýjun lyfja og senda fyrirspurnir, svo dæmi séu tekin. Áhugavert hefur verið að fylgjast með notkun þekkingarhlutans og má sem dæmi nefna að á fyrsta ársfjórðungi þessa árs er heildarfjöldi netspjalla 426, en 337 einstaklinga eru þar að baki. Opið er fyrir netspjalli í u.þ.b. fjórar klukkustundir á dag og er 91% notenda mjög ánægðir með þjónustuna. Þeir sem eru óánægðir eru það flestir vegna þess að þeir geta ekki notað íslykil við innskráningu. Erindin eru af margvíslegum toga og eru flestir fyrirspyrjendur af þjónustusvæði HH eða 87%.  Á sama tíma hafa tölvupóstar til vefstjóra verið 217, en þar er mjög algengt að fólk spyrji um innskráninguna á mínar síður og bendi á eitt og annað sem betur má fara á síðunni. 

Aukin framlög til sálfræðiþjónustu á árinu gera okkur kleift að halda áfram uppbyggingu þeirrar þjónustu og að efla þverfaglega þjónustu innan heilsugæslunnar. HH auglýsir nú eftir sálfræðingum á fimm heilsugæslustöðvar, í starfshlutfalli á bilinu bilinu 40-100% og er áherslan á þjónustu við fullorðna einstaklinga, 18 ára og eldri. Í heildina fjölgar stöðum sálfræðinga fyrir fullorðna um þrjár og verður með þeirri fjölgun unnt að bjóða fullorðnum einstaklingsmiðaða meðferð á sex af 15 heilsugæslustöðvum HH, en þess ber að geta að þjónusta í formi hópmeðferðar fyrir fullorðna eða HAM námskeiða (6 vikna námskeið við kvíða og þunglyndi) er í boði á öllum heilsugæslustöðvum HH. Vegna fjölda tilvísana til fullorðinssálfræðings hefur verið lögð áhersla á hópmeðferð og þannig leitast við að stytta bið eftir þjónustu. 

Samkvæmt stefnu og aðgerðaráætlun í geðheilbrigðismálum er gert ráð fyrir að aðgengi að gagnreyndri meðferð sálfræðinga við algengustu geðröskunum, svo sem þunglyndi, kvíðaröskunum og áfallastreitu, verði á 90% heilsugæslustöðva í árslok 2019.

Geðheilsuteymi vestur tekur formlega til starfa um næstu mánaðarmót, en stofnun teymisins er í samræmi við stefnu og aðgerðaráætlun í geðheilbrigðismálum sem samþykkt var á Alþingi árið 2016. Í þeirri áætlun er gert ráð fyrir þremur geðheilsuteymum á höfuðborgarsvæðinu, en fyrir er Geðheilsuteymi austur, sem þjónar íbúum austan Elliðaáa og Mosfellsumdæmi. Geðheilsuteymi vestur verður til húsa að Skúlagötu 21, en því er ætlað að þjóna íbúum Reykjavíkur vestan Elliðaáa og íbúum á Seltjarnarnesi, en teymið mun jafnframt yfirtaka starfsemi Geðheilsu – Eftirfylgdar. 

Þriðja geðheilsuteymið, Geðheilsuteymi suður, sem þjóna mun íbúum Kópavogs, Garðabæjar og Hafnarfjarðar, mun taka til starfa í byrjun næsta árs og verður á næstu vikum leitað eftir húsnæði fyrir teymið, auk þess sem staða teymisstjóra verður auglýst í sumarlok.  

Geðheilsuteymin þrjú munu veita fólki, sem glímir við geðraskanir, samþætta og sambærilega þjónustu og mun það hafa aðgang að þverfaglegu teymi heilbrigðis- og félagsþjónustu í nærumhverfi sem kemur að greiningu og meðferð. Þjónusta geðheilsuteymanna er einstaklingsmiðuð og er hún veitt af þverfaglegu teymi sem mun hafa á að skipa geðlækni, sálfræðingi, geðhjúkrunarfræðingum, félagsráðgjafa, iðjuþjálfa, fjölskyldumeðferðarfræðingi, sjúkraliða og heilsuráðgjafa þegar teymin verða fullskipað. 

Sumardagurinn fyrsti heilsaði mildur. Við tökum fagnandi á móti nýrri árstíð og þeim áskorunum og viðburðum sem sumrinu fylgir. Gleðilegt sumar og innilegar þakkir fyrir framlag ykkar í vetur. 

Svanhvít Jakobsdóttir 

Ábyrgð – Fagmennska – Traust – Þjónusta – Framþróun