Teymisstjóri Geðteymis vestur ráðinn

Mynd af frétt Teymisstjóri Geðteymis vestur ráðinn
06.03.2018

Ákveðið hefur verið að þrjú geðteymi starfi á vegum HH. Eitt teymi er nú þegar starfandi, Geðheilsustöð Breiðholts, sem áætlað er að fá heitið Geðteymi austur. Þau hafa verið staðsett í Mjódd, en 1. mars fluttu þau tímabundið í Spöngina 35, þar sem Heilsugæslan Grafarvogi er til húsa.Þetta teymi sinnir íbúum Reykjavíkur austan Elliðaáa.

Verið er að setja á laggirnar Geðteymi vestur. Það mun taka til starfa í haust en verið er að leita að húsnæði og ráða starfsfólk. Það sinnir íbúum Reykjavíkur vestan Elliðaáa. Stofnun Geðteymis suður er svo á dagskrá á næsta ári.

Hrönn Harðardóttir hjúkrunarfræðingur hefur verið ráðin sem teymisstjóri Geðteymis vestur við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 1.mars 2018. 

Hrönn lauk BS gráðu í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands árið 1994 og meistaragráðu í heilbrigðisvísindum frá Aarhus Universitet með áherslu á geðheilbrigðisþjónustu árið 2011.

Hún hefur víðtæka starfsreynslu, hefur lengst af unnið á Landspítala, á bráðamóttöku 10-D og á geðsviði, en vann einnig í rannsókn á erfðaþáttum geðsjúkdóma. Hrönn vann hjá AstraZeneca í Vistor 2003-2007, þar sem hafði umsjón með geðrofs- og krabbameinslyfjum. Hún bjó í Danmörku 2007-2011, og vann þar í heimahjúkrun og um 3 ára skeið í samfélagsgeðteymi við Risskov háskólageðsjúkrahús í Árósum. 

Hrönn stofnaði geðteymi Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja (HSS) 2011 og var þar teymisstjóri og  yfirhjúkrunarfræðingur sálfélagslegrar þjónustu HSS til ársins 2016. Hún var svo teymisstjóri bráðaþjónustu geðsviðs LSH. 

Við bjóðum Hrönn velkomna til starfa hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.