Febrúarpistill forstjóra

Mynd af frétt Febrúarpistill forstjóra
26.02.2018

Fyrsta heila árið í nýju fjármögnunarkerfi heilsugæslustöðva er um garð gengið og uppgjörstölur vegna nýliðins árs að líta dagsins ljós. Þetta fyrsta rekstrarár í breyttu umhverfi hefur tekið á, enda forsendur gjörólíkar frá fyrri áætlanagerð. Sú ákvörðun var þó tekin að þetta fyrsta ár í nýju kerfi yrði nokkurs konar aðlögunarár, stuðst yrði við sömu aðferðir við ákvörðun fjárveitinga til einstakra stöðva eins og gert hefur verið um langt skeið, en rekstur stöðvanna smá saman lagaður að niðurstöðum fjármögnunarlíkansins. 

Við erum reynslunni ríkari eftir þetta fyrsta ár í nýju fjármögnunarkerfi. Við hjá HH hefðum viljað hafa aðdragandann að kerfisbreytingunni meiri og undirbúninginn betri. Það er tímabært að horfa til þessa fyrsta rekstrarárs, meta reynsluna og fara í nauðsynlegar endurbætur í ljósi hennar. Reglulegir samráðsfundir um kerfið hafa skilað ákveðnum bótum og mikilvægt er að halda inni gæðaþáttum til að styrkja framtíðarsýn og efla gæðastarf innan heilsugæslunnar. Hins vegar er það skoðun framkvæmdastjórnar að auka þurfi vægi kostnaðarvísitölu og félagsþarfavísitölu á kostnað ACG þyngdar. Nýja fjármögnunarkerfið er til bóta, en stöðugt umbótastarf er nauðsynlegt svo tryggja megi réttlæti og trú á kerfinu. Þá má nefna að lítið sem ekkert eftirlit hefur verið með nýja fjármögnunarlíkaninu á þessu fyrsta rekstrarári og er nauðsynlegt að ráða bót á því.   

Bráðabirgðarekstrartölur ársins 2017 sýna að rekstur heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu er undirfjármagnaður, einungis tvær af 15 stöðvum HH voru réttum megin við strikið miðað við þær tekjur sem líkanið gaf. Það er því full þörf fyrir þá 200 m.kr. viðbót sem kom inn í kerfið í ár og vonir standa til þess að hluti 300 m.kr. óskiptrar fjárveitingar til heilsugæslunnar samkvæmt fjárlögum þessa árs fari einnig í fjármögnun kerfisins á höfuðborgarsvæðinu.  

Skráðir einstaklingar hjá HH voru í lok árs 2017 alls 175.959, en alls 181.751 áður en skráning hófst á nýju einkastöðvarnar eða í maí 2017. Skráðum fækkaði um tæp sex þúsund.  

Breytingar verða á persónuverndarlögum á vormánuðum. Þær innibera m.a. aukna réttarvernd einstaklinga, auknar skyldur um skjölun, ferla, verklagsreglur og samninga, nýjar og sjálfstæðar skyldur vinnuaðila og stórauknar sektarheimildir. Framundan er því vinna er m.a. lítur að endurskoðun/mótun persónuverndarstefnu, endurskoðun/mótun innri ferla og endurskoðun samninga og samningsákvæða sem varða persónuupplýsingar. 

Annað stórt verkefni sem bíður þessa árs er innleiðing jafnlaunastaðals/jafnlaunavottunar, sem ljúka ber skv. lögum fyrir næstu áramót. Tilgangur jafnlaunavottunarinnar er að draga úr kynbundnum launamun og miða að auknu launajafnrétti kynjanna. Markmiðið er að jafnlaunavottunarferlið auki almenna starfsánægju og muni leiða til gagnsærra og réttlátara launakerfis. 

Oftar en ekki er mikið álag á starfsfólki HH og því mikilvægt að geta litið upp í dagsins önn og gert sér glaðan dag. Það gerði starfsfólk HH svo sannarlega á árshátíðinni um nýliðna helgi, sem var í alla staði hin glæsilegasta. Takk fyrir góða skemmtun. 

Gangi okkur öllum vel í krefjandi verkefnum vetrarins. 

Svanhvít Jakobsdóttir 

Ábyrgð – Fagmennska – Traust – Þjónusta – Framþróun