Janúarpistill forstjóra

Mynd af frétt Janúarpistill forstjóra
26.01.2018

Nýr heilbrigðisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, heimsótti Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í síðustu viku. Með ráðherra í för voru Iðunn Garðarsdóttir, aðstoðarmaður ráðherra, Anna Lilja Gunnarsdóttir, ráðuneytisstjóri, Vilborg Ingólfsdóttir, skrifstofustjóri og Elsa B. Friðfinnsdóttir, stjórnsýslufræðingur.

Að þessu sinni voru fjórar af starfsstöðvum HH heimsóttar, þ.e. Heilsugæslan Efstaleiti, Heilsugæslan Mjódd, Þroska- og hegðunarstöð og Göngudeild sóttvarna og hælisleitenda. Svæðisstjórar og yfirmenn starfsstöðvanna tóku vel á móti ráðherra, kynntu starfsemina og svöruðu, ásamt samstarfsfólki sínu, spurningum gestanna. Einstakar móttökur, upplýsandi og góðar umræður og lét ráðherra mjög vel af því metnaðarfulla starfi sem þar fer fram.  

Að loknum heimsóknum á starfstöðvar gafst framkvæmdastjórn kostur á að funda með ráðherra og embættismönnum þar sem farið var yfir þau mál sem helst brenna á starfsmönnum og stjórnendum HH. Meðal þeirra mála sem rædd voru við ráðherra voru breyttir tímar í heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu, fjármögnunarlíkanið og undirfjármögnun heilsugæslunnar heilt yfir, nauðsyn þess að efla þverfaglegt starfs/teymisvinnu innan heilsugæslunnar, húsnæðismál, uppbygging geðteyma og sálfræðiþjónustu, málefni Þroska- og hegðunarstöðvar, efling heimahjúkrunar, staða HH sem opinberrar heilsugæslu og um hlutverk Þróunarstofu á landsvísu. 

Svandís Svavarsdóttir, ráðherra var afar ánægð með móttökurnar og hrósaði starfsfólki og starfseminni. Við þökkum ráðherra kærlega fyrir heimsóknina og hlökkum til áframhaldandi samstarfs.  

Innleiðing nýs símkerfis stendur nú yfir. Nýtt símkerfi er innleitt á tvær starfsstöðvar í viku hverri og er áætlað að innleiðingunni ljúki í fyrstu viku marsmánaðar. Í tengslum við innleiðingu á nýju símkerfi á öllum starfsstöðvum HH hefur þurft að skipta út eldveggjum og tölvusvissum. Innleiðing símkerfisins er unnin á dagvinnutíma og erum við þakklát þolinmæði og skilningi starfsmanna og sjúklinga á því raski sem óhjákvæmilega fylgir slíku verki. 

Nánast vikulega birtast á innri vef HH svokallaðir lean molar. Það er ánægjulegt að fylgjast með því mikla gæða- og umbótastarfi sem fram fer í allri stofnuninni.       

Vetrarmánuðirnir eru annatími í heilsugæslunni, þar sem álag vegna inflúensu og umgangspesta bætist við reglubundin verkefni heilsugæslunnar. Á þessum tíma er alla jafna mikið að gera á dag- og síðdegisvöktum. Starfsfólk heilsugæslunnar er boðið og búið að aðstoða og leysa úr hvers kyns erindum skjólstæðinga sinna. Hafið innilega þökk fyrir ykkar frábæru störf.  

Gangi okkur öllum vel í krefjandi verkefnum vetrarins. 

Svanhvít Jakobsdóttir 

Ábyrgð – Fagmennska – Traust – Þjónusta – Framþróun