Heimsókn heilbrigðisráðherra

Mynd af frétt Heimsókn heilbrigðisráðherra
19.01.2018

Í gær, fimmtudaginn 18. janúar, heimsótti Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra fjórar starfstöðvar Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HH) ásamt framkvæmdastjórn HH og fundaði að því loknu með framkvæmdastjórninni. Með ráðherra í för voru Iðunn Garðarsdóttir, aðstoðarmaður ráðherra, Anna Lilja Gunnarsdóttir, ráðuneytisstjóri, Vilborg Ingólfsdóttir, skrifstofustjóri og Elsa B. Friðfinnsdóttir, stjórnsýslufræðingur.

Heimsóknin hófst í Heilsugæslunni Efstaleiti. Þar kynnti Alma Eir Svavarsdóttir svæðisstjóri starfsemina og sýndi stöðina.

Margrét Ólafía Tómasdóttir heimilislæknir kynnti nýja doktorsritgerð sína um fjölveikindi og færði ráðherra eintak.

Því næst var förinni heitið í Mjóddina. Þar var byrjað á að heimsækja Heilsugæsluna Mjódd þar sem Hrafnhildur Halldórsdóttir svæðisstjóri tók á móti hópnum og sagði frá starfseminni.

Þá var haldið í næsta hús þar sem Þroska- og hegðunarstöð og Göngudeild sóttvarna og hælisleitenda eru til húsa. Gyða S. Haraldsdóttir, forstöðumaður  Þroska- og hegðunarstöðvar og Kai Blöndal, yfirlæknir Göngudeildarinnar gerðu grein fyrir þeirri sérhæfðu starfsemi sem þar fer fram.

Að lokum var farið í þriðja húsið í Mjóddinni þar sem Skrifstofa Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins er staðsett. Þar funduðu ráðherra og fylgdarmenn hennar með framkvæmdastjórn HH þar sem farið var yfir það sem efst er á baugi varðandi starfsemi HH.

Það var afar ánægjulegt að fá tækifæri til að kynna starfsemi HH fyrir ráðherra og líflegar umræður við starfsfólk heilsugæslunnar fóru fram á öllum áfangastöðum.

Mynd 1: Alma Eir Svavarsdóttir svæðisstjóri kynnir starfsemi Heilsugæslunnar Efstaleiti

Mynd 2: Svandís Svavarsdóttir og Margrét Ólafía Tómasdóttir með ritgerðina

Mynd 3: Hópurinn í Heilsugæslunni Mjódd: frá vinstri Elsa B. Friðfinns- dóttir stjórnsýslufræðingur, Vilborg Ingólfsdóttir skrifstofustjóri, Lúðvík Ólafsson heimilislæknir, Jón Aðalsteinn Jóhannsson fagstjóri lækninga, Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra, Anna Lilja Gunnarsdóttir ráðuneytisstjóri, Hrafnhildur Halldórsdóttir svæðisstjóri, og Iðunn Garðarsdóttir aðstoðarmaður ráðherra.

Mynd 4: Hópurinn á Þroska- og hegðunarstöð: frá vinstri Óskar Reykdalsson framkvæmdastjóri lækninga, Katrín Davíðsdóttir barnalæknir, Anna Lilja Gunnarsdóttir ráðuneytisstjóri, Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra, Gyða S. Haraldsdóttir forstöðumaður, Svanhvít Jakobsdóttir forstjóri og Iðunn Garðarsdóttir aðstoðarmaður ráðherra.

Mynd 5: Ráðherra með starfsmönnum Göngudeildar Sóttvarna og hælisleitenda, frá vinstri Þorsteinn Blöndal læknir, Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra, Kai Blöndal yfirlæknir, Ingigerður Jónasdóttir ritari og Ingibjörg Guðmundsdóttir hjúkrunarfræðingur.