Kærkominn meðbyr

Mynd af frétt Kærkominn meðbyr
07.12.2017

Starfsfólk og stjórnendur Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins fagna þeim meðbyr sem heilsugæslan nýtur um þessar mundir. Fyrr í haust kynnti Óttar Proppe þáverandi heilbrigðisráðherra um ráðstöfun viðbótar fjárveitingar sem Alþingi samþykkti á sínum tíma til að efla heimahjúkrun og nú hefur Svandís Svavarsdóttir nýr heilbrigðisráðherra lýst því yfir fyrir hönd ríkisstjórnarinnar að á nýju kjörtímabili verði heilsugæslan efld sem fyrsti viðkomustaður notenda með því að styðja reksturinn og efla þverfaglega vinnu. 

Þörfin fyrir aukna heimaþjónustu á höfuðborgarsvæðinu hefur farið hratt vaxandi undanfarin ár, ekki síst við aldraða. Þess vegna er yfirlýsing nýs heilbrigðisráðherra mikilvæg og við tökum eftir því að hún nefnir einnig að geðheilbrigðismál, forvarnir og lýðheilsa verði í forgrunni en þetta eru einmitt nokkur þeirra mála sem áhersla hefur verið lögð á hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins undanfarin misseri. 

Vegna fjárskorts í kjölfar fjármálahrunsins 2008 hefur svigrúm heilsugæslunnar til að sækja fram með aukna þjónustu verið mjög takmarkað og aðgerðir stjórnenda um of snúist um hverskyns hagræðingaraðgerðir til að verja þá þjónustu sem hefur verið í boði.  Það er því sannarlega kominn tími til að halda áfram að byggja upp þá almennu heilsugæsluþjónustu sem sátt er um að öllum eigi að standa til boða. Þar skiptir miklu að hægt verði að draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga og beina fólki þannig inn í heilsugæsluna. 

Nokkur brýn verkefni

Meðal verkefna sem hafa verið í undirbúningi hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og sem þarf að hrinda í framkvæmd er að efla sálfræðiþjónusta fyrir fullorðna, þannig að hún verði komin inn á allar stöðvar fyrir árslok 2020.  Ennfremur þarf að fylgja eftir fjögurra ára geðheilbrigðisáætlun Alþingis frá 2016. Í framhaldi þeirrar áætlunar lagði samráðshópur Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og velferðarsviðs Reykjavíkur til að fyrir mitt ár 2019 yrði komið á fót tveimur geðheilbrigðisteymum til viðbótar því sem þegar hefur tekið til starfa í borginni. Brýnt er að þetta takist.

Þá þarf að efla heilsugæslu í framhaldsskólum og innleiða samræmda heilsuvernd aldraðra á öllum heilsugæslustöðvum auk þess að styrkja frekari uppbyggingu teymisvinnu innan heilsugæslunnar.  Með því að fjölga hjúkrunarfræðingum í móttöku er hægt að styrkja faglegt mat á bráða þeirra tilfella sem berast heilsugæslunni og beina þeim í réttan farveg. Síðast en ekki síst er brýnt að eyða biðlista eftir þjónustu Þroska- og hegðunarstöðvar heilsugæslunnar þar sem þverfaglegur hópur fagfólks veitir þjónustu börnum og ungmennum að 18 ára aldri sem glíma við frávik eða aðra erfiðleika í þroska, hegðun eða líðan. Hér hafa aðeins verið nefnd nokkur þeirra verkefna sem bíða úrlausnar.

Ég tel mig mæla fyrir munn allra stjórnenda og starfsfólks Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins þegar ég segi mikinn og einlægan vilja ríkja til að taka höndum saman við stjórnvöld um að blása til sóknar í heilsugæslunni. Við erum tilbúin að vera nýjum heilbrigðisráðherra innan handar og til aðstoðar í þessu brýna verkefni.

Svanhvít Jakobsdóttir, forstjóri