Nóvemberpistill forstjóra

Mynd af frétt Nóvemberpistill forstjóra
21.11.2017

Fræðadagar Heilsugæslunnar voru haldnir í byrjun mánaðarins. Þeir hafa skipað sér sess sem glæsilegur vettvangur fræðilegra umræðna og skoðanaskipta um allt það er lítur að þroska, heilsu og líðan einstaklingsins, allt frá vöggu til grafar. Það er mikilvægt hverju fyrirtæki að eiga sér vettvang sem þennan. Vettvang til að deila með öðrum þekkingu sinni og reynslu, kynna niðurstöður rannsókna, læra af öðrum og skiptast á skoðunum. Svo má heldur ekki vanmeta gildi þess að gera sér glaðan dag, líta upp úr amstri hversdagsins, velta vöngum og njóta stundarinnar með samstarfsfólki og kollegum. Maður er jú manns gaman. Framkvæmdanefnd fræðadaga eru færar bestu þakkir fyrir glæsilega ráðstefnu.            

Síðasti dagskrárliður fræðadaga í ár var formleg opnun þekkingar- eða uppflettihluta Heilsuveru. Margir þekkja nú þann hluta Heilsuveru sem gefur fólki færi á að bóka tíma hjá lækni, skoða bólusetningar, óska eftir endurnýjun lyfja og senda fyrirspurnir, svo dæmi séu tekin. Notagildi þekkingarvefsins er gríðarmikið og í raun ómetanlegt að íbúar landsins skuli nú eiga aðgang að svo öflugum gagnvirkum þekkingarvef, sem byggir á upplýsingum frá fagfólki og að það eigi að auki möguleika á að fá leiðbeiningar sem byggja á bestu faglegu þekkingu hverju sinni. Hér hefur verið vandað til verka í alla staði, en vefurinn er samstarfsverkefni Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Embættis landlæknis, sem styrkt var dyggilega af Lýðheilsusjóði. Auk samstarfshóps þessara stofnana lögðu fjölmargir sérfræðingar og leikmenn verkefninu lið. Þekkingarhluti Heilsuveru er mikilvægt skref í að aðstoða íbúana við að meta eigið heilsufar og til sjálfshjálpar. Um leið og öllu því frábæra fólki sem kom að gerð vefsins eru færðar þakkir, fögnum við þessu skrefi til bættrar þjónustu heilsugæslunnar við íbúana og við óskum okkur öllum til hamingju með áfangann.   

Undir mánaðarmótin síðustu veitti heilbrigðisráðherra, Óttarr Proppé, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðinu 160 m.kr. fjárveitingu til eflingar Heimahjúkrunar HH. Fjárveitingunni er ætlað að stuðla að því að því að fólk geti búið sem lengst heima með  aukinni heilbrigðisþjónustu á eigin heimili. Gert er ráð fyrir að hinu aukna framlagi verði varið til að ráða sjúkraþjálfara, iðjuþjálfa og aðrar heilbrigðisstéttir til að auka endurhæfingu fólks sem býr heima, auka sjálfsbjargargetu og draga úr hættu á föllum sem rekja má til skertrar færni. Efld þjónusta heima eykur öryggi fólks og dregur úr þörf fyrir stofnanaþjónustu. Fjárhagsrammi Heimahjúkrunar mun jafnframt hækka sem þessu framlagi nemur frá næstu áramótum. Við þökkum heilbrigðisráðherra, Óttarri Proppé kærlega fyrir stuðninginn. 

Ég hef í þessum pistlum áður komið inn á mikilvægi Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sem kennslustofnunar. Elínborg Bárðardóttir, heimilislæknir tók formlega við starfi kennslustjóra sérnáms í heimilislækningum á dögunum, en hún hefur verið settur kennslustjóri tímabundið eða frá síðustu áramótum. Jafnhliða starfi sínu sem kennslustjóri gegnir Elínborg starfi heimilislæknis við Heilsugæsluna Miðbæ. Um leið og við bjóðum Elínborgu velkomna til starfa vil ég færa fráfarandi kennslustjóra, Ölmu Eir Svavarsdóttur heimilislækni innilegar þakkir fyrir hennar ómetanlegu störf við uppbyggingu og þróun sérnáms í heimilislækningum á Íslandi. Uppbygging sérnáms í heimilislækningum hérlendis var og er mikið framfaraspor fyrir heilsugæslu í landinu.

Nýtt greiðsluþátttökukerfi fyrir heilbrigðisþjónustu tók gildi í maí sl. Markmið hins nýja kerfis er eins og fram hefur komið annars vegar að lækka útgjöld einstaklinga sem fram til þess tíma höfðu greitt háar fjárhæðir fyrir heilbrigðisþjónustu og hins vegar að styrkja hlutverk heilsugæslunnar. Frá sama tíma eða frá 1. maí  tók gildi reglugerð sem kveður á um tilvísanaskyldu fyrir börn. Þessi breyting hefur heilt yfir gengið vel og hefur allt starfsfólk HH lagt sitt að mörkum þar. HH hefur á umliðnum vikum tekið tvo þætti tengda reglugerðarbreytingunni sérstaklega upp við velferðarráðuneytið. Annar er tilvísanir eftir augnskoðanir skólabarna. Hinn er tekjutap  sem heilsugæslan hefur orðið fyrir vegna þess að fleiri einstaklingar njóta afslátta en áður. Við væntum jákvæðra viðbragða frá ráðuneytinu vegna þessa.  

HH tekur þátt í reglulegum fundum með velferðarráðuneyti og Sjúkratryggingum Íslands um þróun fjármögnunarlíkans heilsugæslunnar. Við förum ekki dult með það að margt hefði þurft að vera betur undirbúið fyrir upptöku nýja kerfisins og hafa þessir fundir m.a. verið nýttir til að fylgja eftir úrbótum á því. Við teljum að fjármagna þurfi kerfið betur en þegar hefur verið gert. Taka verður tillit til þess að frá maí til september á þessu ári fjölgaði skráðum einstaklingum heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu um 10 þúsund manns. Við teljum mjög mikilvægt fyrir framtíð bæði kerfisins og heilsugæslunnar, að greiðsla fyrir hvern skráðan skjólstæðing lækki ekki, eins og ætla má af framlögðu fjárlagafrumvarpi fyrir 2018. 

Vetur kóngur bærir á sér – klæðum okkur í takt við árstíðina   

Svanhvít Jakobsdóttir

Ábyrgð – Fagmennska – Traust – Þjónusta – Framþróun