Aukin sálfræðiþjónusta Heilsugæslunnar styttir biðlista

Mynd af frétt Aukin sálfræðiþjónusta Heilsugæslunnar styttir biðlista
28.06.2017

Á árinu 2016 fjölgaði viðtölum sálfræðinga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins um ríflega 44% miðað við árið áður, eða úr 3140 árið 2015 í 4531 árið 2016.  Þessa aukningu má rekja til átaks sem hægt var að ráðast í vegna samþykktar Alþingis í apríl 2016 á stefnu og aðgerðaráætlun í geðheilbrigðismálum. Þar er meðal annars kveðið á um að í lok árs 2017 eigi að vera aðgengi á 50% heilsugæslustöðva að gagnreyndri meðferð sálfræðinga við algengustu geðröskunum, svo sem þunglyndi, kvíðaröskunum og áfallastreitu og á 90% heilsugæslustöðva í lok árs 2019.

Fleiri stöður, hópmeðferðir og skýrara verklag

Agnes Agnarsdóttir var ráðinn fagstjóri sálfræðiþjónustu hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í maí 2016 og síðan þá hefur stöðugildum sálfræðinga í heilsugæslunni fjölgað úr 6,5 í 11,5. Þann 1. september 2016 voru sálfræðingar á öllum 15 stöðvum heilsugæslunnar sem þjóna börnum og unglingum til 18 ára aldurs, auk þess að sinna mæðravernd og mæðraeftirliti.  

Agnes segir að tekið hafi verið upp nýtt og skýrara verklag um þjónustuna og segir hún að meðferðin sem veitt er sé gagnreynd og árangursrannsökuð. Hún segir að mikil fjölgun sálfræðiviðtala milli ára skýrist að miklu leyti af bættu aðgengi að þjónustunni og einnig hafi verið bætt við hópmeðferðum og námskeiðum. Hún nefnir sem dæmi að á tímabilinu frá september 2016 fram í maí 2017 hafi sálfræðingar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins verið með 28 sex vikna hugræn atferlisnámskeið við þunglyndi og kvíða fyrir tæplega 600 fullorðna og unglinga auk námskeiða fyrir börn með kvíðaeinkenni og námskeið fyrir hjúkrunarfræðinga og ljósmæður um undirstöðuatriði hugrænnar atferlismeðferðar og um geðvernd á meðgöngu og eftir barnsburð.

Sálfræðingar Heilsugæslunnar sem sóttu námskeið um þunglyndismeðferð fyrir 13-17 ára unglinga.

Styttri biðlistar

„Það er ljóst að hópmeðferðir, skýrara verklag og síðast en ekki síst fjölgun sálfræðinga hefur skilað miklum árangri. Fyrir vikið hefur okkur tekist að stytta biðlista eftir meðferð en áður var allt að árs bið eftir að komast með börn til sálfræðings á einstaka stöðvum sem var algjörlega óásættanlegt.“ Hún segir að í dag sé biðtíminn nokkuð mismunandi eftir stöðvum en allt frá 2 vikum og upp í 3 mánuði. Hún tekur þó fram að alvarlegum tilfellum sé að sjálfsögðu forgangsraðað þannig að hægt sé að grípa strax inn í.  

Börnum forgangsraðað

Agnes segir að til þessa hafi áherslan verið á að bæta þjónustu við börn og unglinga undir 18 ára aldri enda hafi þörfin verið brýnust þar. Næsta skref sé að auka sálfræðiþjónustu við eldri skjólstæðinga heilsugæslunnar og þá sérstaklega aldurshópinn frá 18 til 30 ára sem bráðvanti þjónustu. „Við getum ekki sinnt þessum hópum í dag nema með 6 vikna hópmeðferðum í hugrænni atferlismeðferð en það er eina þjónustan sem fullorðnum stendur til boða. Þetta er hins vegar úrræði sem nýtist síður ungu fólki og það getur verið erfitt fyrir 18 ára og eldri að fá sálfræðiþjónustu þar sem hún er ekki niðurgreidd hjá sjálfstætt starfandi sálfræðingum. Þess vegna bráðvantar einstaklingsmeðferð fyrir þennan hóp.“  Hún segir að frá og með haustinu hafi fengist heimild fyrir 2,8 nýjum stöðugildum sálfræðinga  en það þurfi augljóslega mun fleiri því heilsugæslan reki 15 stöðvar og þjónusti rúmlega 180 þúsund íbúa. Agnes telur að fullorðnir einstaklingar með vægt eða miðlungs alvarlegt þunglyndi eða kvíða eigi að geta leitað til heilsugæslunnar með sín mál. Það reynist mörgum erfitt í slíkri stöðu að þurfa að leita til geðdeildarinnar.  Hún segir nýlegar tölur sýna aukna notkun þunglyndislyfja hér á landi og að mesta aukningin sé  hjá yngri notendum 15 til 19 ára.  Íslendingar noti mun meira af þunglyndislyfjum en nágrannaþjóðirnar og helsta ástæða örorku hér á landi sé vegna geðrænna vandamála. Næst algengasta ástæða örorku sé stoðkerfisvandi sem mjög oft tengist andlegri líðan fólks. Hún segir að fyrsti valkostur við kvíða og þunglyndi eigi að vera hugræn atferlismeðferð og ef hún dugi ekki sé eðlilegt að athuga lyfjameðferð.  Að hennar mati ætti að vera hægt að draga verulega úr þunglyndislyfjanotkun með því að auka aðgengi að gagnreyndri sálfræðimeðferð eins og t.d. hugrænni atferlismeðferð. 

Agnes Agnarsdóttir ásamt breska sérfræðingnum Lauru Pass  frá Háskólanum í Reading sem kom hingað nýlega og hélt 2ja daga námskeið fyrir sálfræðinga Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins um þunglyndismeðferð fyrir 13-17 ára unglinga.