Júnípistill forstjóra

Mynd af frétt Júnípistill forstjóra
23.06.2017

Rúmt ár er frá því að heimahjúkrun á heilsugæslustöðvunum Sólvangi, Firði, Garðabæ og Hamraborg var sameinuð í eina starfseiningu, Heimahjúkrun HH í Hafnarfirði, Garðabæ og Kópavogi, sem staðsett er í Hlíðasmára, Kópavogi. Markmiðið með sameiningu heimahjúkrunar á suðursvæði höfuðborgarsvæðisins er að byggja upp faglega, sérhæfða og skilvirka heimahjúkrun sem kemur til móts við þarfir þeirra sem þjónustunnar njóta. Sameining af þessum toga er ekki vandalaus, en heilt yfir hefur hún tekist vel. Það hefur gengið vel að fá starfshópana til að ganga í takt á nýjum stað, álagi er nú betur dreift en áður og starfsfólk Heimahjúkrunar HH er einhuga um að efla og bæta þjónustu við skjólstæðinga sína.

Starfsemistölur í heimahjúkrun sýna aukna starfsemi, bæði hvað varðar heildarfjölda samskipta og fjölda vitjana. Frá árinu 2010 til ársins 2016 hefur heildarfjöldi vitjana aukist um 50%. Heimahjúkrun HH í Hafnarfirði, Garðabæ og Kópavogi sinnir nú á hverjum tíma um 650 einstaklingum, þar af eru 43 einstaklingar sem búa heima með fullgilt færni- og heilsumat fyrir hjúkrunarrými og 9 með samþykkt mat fyrir dvalarrými. Á þessu má sjá að áskoranir í heimahjúkrun eru margar. Leitast er við að tryggja að enginn þurfi að bíða eftir þjónustu Heimahjúkrunar, en skjólstæðingahópurinn verður sífellt veikari og veikari sem kallar á meiri sérhæfingu og mannafla, aukna viðveru, þverfaglega teymisvinnu og markvissari samvinnu við sjúkrahús og aðstandendur.         

Í marspistli fjallaði ég um fjölgun læknisviðtala milli áranna 2015 og 2016 og þá miklu jákvæðu breytingu sem varð milli áranna. Starfsemistölur úr Sögu sýna einnig verulega fjölgun viðtala á dagvakt hjúkrunarfræðinga, en þau voru samtals 78.972 á árinu 2016. Til samanburðar voru viðtöl hjúkrunarfræðinga á dagvakt samtals 64.044 á árinu 2015. Viðtölum á dagvakt hjúkrunarfræðinga fjölgar um 23% milli áranna. Sannanlega góður árangur.    
Ár hvert líta konur gjarnan til baka á kvenréttindadeginum 19. júní og minnast unninna sigra í jafnréttisbaráttunni, en 102 ár eru síðan konungur samþykkti lög frá Alþingi sem færði íslenskum konum, 40 ára og eldri, kosningarrétt. Við hjá HH búum að miklum mannauð, en konur eru meirihluti starfsmanna og stór hluti stjórnenda HH eru einnig konur. Konur hafa sinnt og verið leiðandi á mörgum sviðum innan heilsugæslunnar svo sem í heilsuverndarstarfi, mæðravernd og ung- og smábarnavernd, en árangur okkar á því sviði er eftirtektarverður um heim allan. Til hamingju konur með daginn.    

Heilbrigðisráðherra, Óttarr Proppé, heimsótti Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í vikunni. Því miður reyndist ekki unnt í þetta sinn að heimsækja allar starfsstöðvar HH og bíður það betri tíma. Ráðherra heimsótti annars vegar Heilsugæsluna Hamraborg og hins vegar Heimahjúkrun HH í Hafnarfirði, Garðabæ og Kópavogi. Kristjana S. Kjartansdóttir, svæðisstjóri í Hamraborg tók á móti ráðherra og fylgdarfólki hans, sýndi stöðina og sagði frá starfseminni. Heilsugæslan Hamraborg er ein af elstu heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu á meðan Heimahjúkrun er  yngsta starfsstöð HH. Þær Sigrún K. Barkardóttir svæðisstjóri Heimahjúkrunar og Inga Valgerður Kristinsdóttir, sérfræðingur sögðu frá starfsemi Heimahjúkrunar og sýndu húsakynni og aðstöðu.   

Hinn hefðbundni sumarleyfistími er hafinn og markast starfsemin að sjálfsögðu af því næstu vikurnar. Óhjákvæmilega verða færri við störf, en eins og ávallt mun starfsfólk HH leitast við að sinna öllum erindum eins og kostur er. Fjárhagsrammi HH leyfir einungis takmarkaðar afleysingar  yfir sumarmánuðina og þó svo fjárhagslegt svigrúm væri meira er vandséð að fagfólk fyndist í allar þær afleysingar sem þörf er fyrir. Sumarstarfsmenn eru boðnir velkomna til starfa, við tökum vel á móti þeim. Kærkomið frí bíður nú hinna eftir annasaman vetur.      

Með ósk um gott og gleðiríkt sumarfrí.   

Svanhvít Jakobsdóttir 

Ábyrgð – Fagmennska – Traust – Þjónusta – Framþróun