Hreyfivika í Hafnarfirði

Mynd af frétt Hreyfivika í Hafnarfirði
30.05.2017

Í tilefni af þátttöku Hafnarfjarðarbæjar í Hreyfivikunni „Move week, sem haldin er um gjörvalla Evrópu vikuna 29. maí - 4. júní fá allir skjólstæðingar Heimahjúkrunar Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sem búa í Hafnarfirði hvatningu til hreyfingar. 

Margir skjólstæðingar heimahjúkrunar hreyfa sig lítið og fara nánast aldrei út úr húsi. Í Hreyfivikunni munu starfsmenn heimahjúkrunar kynna fyrir skjólstæðingum sínum að nú sé hreyfivika í Hafnarfirði og hvort þeir vilji ekki taka þátt. Farið verður yfir þá staðreynd að regluleg hreyfing hægir á áhrifum og einkennum öldrunar og hjálpar fólki að viðhalda getunni til að vera sjálfbjarga í daglegu lífi. Hún eykur vöðvastyrk, bætir jafnvægi og dregur því úr byltuhættu, eykur liðleika, hægir á beinþyningu, bætir starfsemi hjarta og æðakerfis og bætir andlega líðan.

Skjólstæðingar heimahjúkrunar eru á aldrinum 21 árs til 100 ára og eiga þeir miserfitt með að hreyfa sig. Hvatning og leiðbeining til hreyfingar fer því eftir getu hvers og eins.

Skjólstæðingarnir fá tillögur að æfingum og leiðbeiningar um hvernig þær eru framkvæmdar. Þeir eru hvattir til að gera æfingar sjálfir á milli þess sem heimahjúkrun kemur og í næstu vitjun verður farið yfir hvernig hefur gengið. Mörgum skjólstæðingum heimahjúkrunar finnst þeir ekkert geta gert en mottó okkar er:

Allir geta eitthvað

Í þessu eins og öðru er hægt að tala um að margt smátt gerir eitt stórt, þ.e. hversu lítil sem hreyfingin er þá skilar hún alltaf einhverju.

Skjólstæðingar heimahjúkrunar eru ekki að fara að æfa fyrir maraþonhlaup heldur fá þeir leiðbeiningar um einfaldar æfingar sem hægt er að gera bæði standandi og sitjandi.  Dæmi um æfingar má nefna, ganga, ganga á staðnum, standa upp úr stól, lyfta fótum, höndum og öxlum, kreppa hnúa og rétta úr fingrum.  Skemmtilegasta æfingin er svo að gretta sig í framan, setja stút á munninn og brosa.

Þátttaka í hreyfivikunni getur verið fræið sem við sáum með það að markmiði að auka hreyfingu og efla heilbrigði skjólstæðinga heimahjúkrunar.