Gæfuspor – námskeið fyrir þolendur ofbeldis

Mynd af frétt Gæfuspor – námskeið fyrir þolendur ofbeldis
12.05.2017

Gæfusporin eru 12 vikna gagnreynt meðferðarprógramm/námskeið fyrir konur sem eru þolendur ofbeldis. Konurnar sem taka þátt í námskeiðinu eiga það sameiginlegt fyrir utan að hafa orðið fyrir áföllum af völdum ofbeldis að vera með áfallastreituröskun, kvíða og þunglyndi. Jafnframt eru flestar konurnar við það að detta af atvinnumarkaði eða úr námi og aðrar hafa verið óvirkar til lengri eða skemmri tíma. 

Tilgangur námskeiðsins er að bæta andlega og líkamlega líðan kvenna sem lent hafa í áföllum af völdum ofbeldis (kynferðis- líkamlegs og andlegs ofbeldis). 

Markmiðið námskeiðsins er að auka getu og færni kvennanna ásamt að stuðla að því að þær verði virkari þátttakendur í daglegu lífi.

Á námskeiðinu er unnið með líkamlega og andlega þætti með fræðslu, með meðferðarvinnu í sálfræðihóp, einstaklingsviðtölum, jóga, leikfimi, kennslu í líkamsvitund, sjálfstyrkingu, slökun, svæðameðferð og þátttöku í virknihóp þar sem lögð er áhersla á daglega iðju og virkni. Að námskeiðinu kemur því þverfaglegur hópur fagfólks ásamt fyrrum þolendum. Eftir námskeiðið tekur við árs eftirfylgni. 

Gæfusporin voru fyrst sett af stað á Akureyri árið 2011 og í Reykjavík 2015. Haldin hafa verið fjögur námskeið í Reykjavík og fimm á Akureyri. Árangur námskeiðsins er mældur með viðurkenndum kvörðum og hafa niðurstöður námskeiðsins sýnt fram á góðan árangur varðandi bætta líðan kvennanna m.a. hvað varðar þunglyndi, kvíða og áfallastreituröskun. Jafnframt hjálpað til aukinnar virkni hvort sem það er að fara aftur út á atvinnumarkað eða í nám. 

Námskeiðið hefst í september 2017. 

Umsjónarmaður námskeiðsins er Sigríður Hrönn Bjarnadóttir, sérfræðingur á sviði geðhjúkrunar með áherslu á afleiðingar ofbeldis

Sigríður Hrönn gefur nánari upplýsingar í síma 821-2379 eða tölvupósti: sigridur.hronn@heilsugaeslan.is.