Febrúarpistill forstjóra

Mynd af frétt Febrúarpistill forstjóra
23.06.2017

Í byrjun þessa mánaðar lagðist af sólarhringsvaktþjónusta Heilsugæslu Mosfellsumdæmis, sem læknar stöðvarinnar hafa sinnt undanfarna áratugi. Ný kröfulýsing fyrir heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu gerir ekki ráð fyrir að rekin sé vaktþjónusta heimilislækna um nætur á vegum einstakra heilsugæslustöðva og Sjúkratryggingar hafa samið við læknavaktina um kvöld og helgarþjónustu fyrir höfuðborgarsvæðið. Það sama gildir um nýja fjármögnunarlíkanið, sem tók gildi um áramótin síðustu. Á þessum tímamótum er læknum og öðru starfsfólki Heilsugæslu Mosfellsumdæmis þakkað það góða og óeigingjarna starf sem það hefur veitt íbúum í umdæminu á liðnum áratugum.  Þjónusta stöðvarinnar hefur skipt íbúa umdæmisins miklu og verið metin að verðleikum og við gerum okkur grein fyrir að starfsfólk Heilsugæslu Mosfellsumdæmis var tilbúið að sinna þessu verkefni áfram af sama myndarskap og áður. Um leið verðum við að treysta því að íbúar umdæmisins fái áfram góða þjónustu. 

Nú er sá tími ársins sem gera má ráð fyrir að álag vegna inflúensu og annarra umgangspesta aukist verulega í heilsugæslunni og við svo verði búið næstu vikurnar. Eðli máls samkvæmt má vænta aukinnar aðsóknar á dag- og síðdegisvaktir heilsugæslunnar, sem reyna mun á starfsfólk stöðvanna. Við í heilsugæslunni búum að mjög reyndu og öflugu starfsfólki sem ávallt er tilbúið að leggja sitt að mörkum til að mæta þörfum íbúanna hverju sinni. Hafið þökk fyrir það. 

Vinna við gerð rekstraráætlunar fyrir árið 2017 tók óvenju langan tíma að þessu sinni. Skýringar á því eru m.a. ný lög um opinber fjárlög, síðbúin framlagning fjárlagafrumvarps og upptaka nýs greiðslulíkans fyrir heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu. En allt um það, rekstraráætlun HH, ásamt stefnuskjali sem opinberum stofnunum ber nú í fyrsta skipti að skila með rekstraráætlun sinni, var skilað til velferðarráðuneytisins þann 31. janúar sl. Samkvæmt. fylgiriti með fjárlögum 2017 eru framlög til HH 7.220 m.kr. eða 6.584 m.kr. að frádregnum sértekjum stofnunarinnar. Rekstraráætlun HH gerir  ráð fyrir nær óbreyttu umfangi á rekstri heilsugæslustöðva HH, sem og annarra skipulagseininga. Þrátt fyrir að nýtt reiknilíkan hafi verið tekið í gagnið um áramót eru því miður enn ekki allar forsendur klárar hvað það varðar og munar nokkuð á reiknuðum framlögum til heilsugæslustöðva HH skv. líkaninu og þeim framlögum sem fylgirit fjárlaga áætlar miðað við óbreyttan rekstur þeirra.    

Í samræmi við nýtt stjórnskipulag heilsugæslustöðva hafa, frá og með janúarmánuði, svæðisstjórar tekið til starfa á öllum heilsugæslustöðvum okkar. Fagstjórar lækninga og hjúkrunar eru sömuleiðis komnir á allar stöðvarnar. Um leið og ég býð nýja stjórnendur velkomna til starfa hjá HH langar mig að nota tækifærið og þakka fráfarandi stjórnendum heilsugæslustöðva þeirra frábæru störf í þágu íbúa á höfuðborgarsvæðinu. Mörg ykkar hafið starfað um langt skeið hjá HH og sum ykkar munu halda áfram starfi hjá stofnuninni og erum við þakklát fyrir það. Þið eruð óhikað frumkvöðlar í uppbyggingu heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu og landinu öllu. Eigið þökk fyrir ykkar ómetanlegu störf og ég óska ykkar velfarnaðar á nýjum vettvangi. 

Nú þegar breytingum á stjórnskipulagi heilsugæslustöðva er lokið stendur eftir að innleiða nýtt skipulag skrifstofu, stoðsviða hennar og miðlægra eininga  og þar með talið heildarskipulags HH. Undirbúningur að því verkefni hófst fyrir tæpu ári síðan og á þeim tíma hefur verið virkt samráð við stjórnendur og lykilstarfsfólk HH. Framkvæmdastjórn HH samþykkti nýverið drög að nýju skipulagi HH og mun nýja skipulagið verða kynnt starfsfólki HH í mánuðinum.  

Í gangi eru námskeið fyrir alla starfandi ritara hjá HH. Hvert námskeiðið er tveir hálfir dagar og er það mjög mikilvægur hluti þess breytingaferlis sem HH er í. Á námskeiðinu er fjallað um breytta tíma í heilsugæslu og þær áskoranir sem heilsugæsla á höfuðborgarsvæðinu stendur frammi fyrir, nýja fjármögnunarlíkanið er kynnt og fjallað um teymisvinnu og aðferðafræði straumlínu-stjórnunar. Loks er rætt um samskipti, samvinnu, og þjónustu við skjólstæðinga HH. 

HH er framsækið þjónustu- og þekkingarfyrirtæki og við vöxum í krafti mannauðs okkar.     

Svanhvít Jakobsdóttir 

 

Ábyrgð – Fagmennska – Traust – Þjónusta – Framþróun