Jákvæður rekstur HH sjötta árið í röð

Mynd af frétt Jákvæður rekstur HH sjötta árið í röð
24.06.2016

Rekstur Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins var jákvæður um 14,5 milljónir kr. á árinu 2015. Er þetta sjötta árið í röð sem rekstur þessarar næst stærstu heilbrigðisstofnunar landsins er réttu megin við strikið. 

Eins og hjá mörgum öðrum stofnunum ríkisins varð verulegur halli á rekstri stofnunarinnar í kjölfar bankahrunsins og næstu ár á eftir voru framlög til stofnunarinnar skert. Enn vantar talsvert á að fjárheimildir HH hafi orðið jafnháar og fyrir bankahrun, miðað við sama launa- og verðlagsstig, en stofnunin hefur engu að síður náð að halda rekstrinum í jafnvægi á undanförnum árum.

Heildarútgjöld stofnunarinnar námu  6,4 milljörðum kr árið 2015. Þar af námu launagreiðslur HH 4,8 milljörðum á árinu og höfðu hækkað um 17% frá árinu áður. 

Samtals voru unnin 123 ársverk lækna hjá HH árið 2015, 117 ársverk hjúkrunarfræðinga, 20 ársverk ljósmæðra, 32 ársverk sjúkraliða, 20 ársverk sálfræðinga, 116 ársverk ritara og 24 ársverk annarra starfsmanna. Heildarfjöldi ársverka hjá stofnuninni var því 452 á árinu.

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins samanstendur af 15 heilsugæslustöðvum, Þroska- og hegðunarstöð, Göngudeild sóttvarna, Geðheilsu/eftirfylgd, heimahjúkrun í Kraganum og annarri miðlægri starfsemi, sem fyrst og fremst gegnir því hlutverki að styðja starfsemi heilsugæslustöðvanna.