Hvað eru margir íbúar á höfuðborgarsvæðinu án fasts heimilislæknis?
Hvað gætu margir fengið skráningu ef samlög (yfirleitt eru 1500 skjólstæðingar skráðir hjá hverjum lækni) allra heimilislækna á svæðinu yrðu að fullu nýtt?
Þessum spurningum verður hægt að svara á næstunni þegar lýkur tiltekt í skráningalistum þeirra sem annast heimilislækningar á svæðinu, heilsugæslustöðvum og sjálfstætt starfandi heimilislæknum.
Erfitt hefur reynst að fá fram fullnægjandi mynd af heimilislæknaþjónustu við íbúa höfuðborgarsvæðisins vegna þess hvað skráningakerfið er margskipt. En eftir að samkomulag náðist á milli Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Sjúkratrygginga Íslands á síðasta ári um samkeyrslu ganga og útsendingar bréfa til skjólstæðingahópa sem eru skráðir á tvo eða fleiri heimilislækna, hefur verkefninu miðað vel áfram.
Ekki er gert ráð fyrir að hver íbúi sé skráður hjá fleirum en einum lækni, enda nauðsynlegt að nýta vel fjármuni heilbrigðiskerfisins og taka tillit til þess að fjöldi heimilislækna er takmarkaður; tvískráningar sumra hamla því að aðrir, sem hafa engan heimilislækni, fái fullnægjandi skráningu. Ýmsar ástæður geta verið fyrir því að fólk sé skráð á fleirum en einum heimilislækni. Aðalatriðið er að fólk fái sjálft tækifæri til að segja til um hjá hvorum heimilislækninum það vilji vera skráð. Um leið og tvískráningum fækkar ættu að opnast pláss fyrir þá sem beðið hafa eftir skráningu hjá föstum heimilislækni.
Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins reynir eftir fremsta megni að láta endurskoðun á skráningum fara fram í góðri sátt við íbúana. Vonandi leiðir hún til þess að fjármunir heilsugæsluþjónustunnar nýtist betur og margir sem beðið hafa eftir heimilislækni fái nú fasta skráningu. Hún mun án efa kalla fram betri upplýsingar um stöðu heimilislæknaþjónustunnar á höfuðborgarsvæðinu.