Gáttir VERU opnaðar í Heilsugæslunni Glæsibæ

Mynd af frétt Gáttir VERU opnaðar í Heilsugæslunni Glæsibæ
10.10.2014

Rafrænn aðgangur einstaklinga að eigin heilbrigðisupplýsingum

Tímamót urðu í heilbrigðisþjónustunni þegar Heilsugæslan Glæsibæ tók í notkun heilbrigðisgáttina VERU sem veitir einstaklingum sem þar fá þjónustu rafrænan aðgang að margvíslegum upplýsingum um eigið heilsufar. Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra opnaði gáttina formlega að viðstöddum fulltrúum Embættis landlæknis og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Heilsugæslan Mjódd er einnig byrjuð að nota VERU.

Embætti landlæknis, í samvinnu við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og hugbúnaðarfyrirtækið TM Software, hafa unnið að þróun VERU sem veitir einstaklingum einfaldan, aðgengilegan og öruggan rafrænan aðgang að skilgreindum heilbrigðisupplýsingum um sjálfa sig.

Innleiðing á landsvísu

Stefnt er að því að upplýsingagáttin VERA verði orðin hluti af þjónustu allra heilsugæslustöðva á Höfuðborgarsvæðinu í lok nóvember. Í framhaldinu verður VERA innleidd hjá stofnunum í öllum heilbrigðisumdæmum landsins og er áætlað að ljúka því verki í byrjun febrúar á næsta ári.

Aukið öryggi sjúklinga og skilvirkari þjónusta

Innleiðing VERU byggist meðal annars á því að aukin notkun upplýsingatækni innan heilbrigðisþjónustunnar eykur öryggi sjúklinga og gæði þjónustunnar sem þeim er veitt og stuðlar jafnframt að meiri skilvirkni. 

„Opnun VERU hér í Glæsibæ og innleiðing hennar í heilbrigðisþjónustunni er merkilegur áfangi í þjónustu við sjúklinga og alla sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda. Þetta er einnig mikilvægt skref í því stóra verkefni sem ég hef kynnt undir merkjum Betri heilbrigðisþjónustu. Með VERU gefst almenningi stóraukið tækifæri til að fylgjast með og vera virkir þátttakendur í eigin meðferð og í því felst ótvíræður ávinningur“ sagði Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra við formlega opnun VERU hjá Heilsugæslunni Glæsibæ í dag.

Helstu markmiðin með VERU eru að;

  • Veita almenningi rafrænan og öruggan aðgang að eigin heilbrigðisupplýsingum.  
  • Stuðla að auknu öryggi sjúklinga með því að veita aðgang að eigin heilbrigðisupplýsingum, eins og lyfjaupplýsingum og ofnæmi.
  • Auka þjónustu í heilbrigðiskerfinu við almenning þannig að einstaklingar geti nálgast sínar heilbrigðisupplýsingar án tafar hvar og hvenær sem er óháð því á hvaða heilbrigðisstofnun, heilsugæslustöð eða starfsstofu sérfræðings upplýsingarnar voru skráðar. 
  • Gera einstaklinum kleift að eiga í öruggum rafrænum samskiptum við lækna og aðra heilbrigðisstarfsmenn.

Strangar öryggiskröfur gilda um aðgang að VERU, bæði hvað varðar tæknilega högun og aðgangsstýringar. Aðgangsstýringar koma í veg fyrir að aðrir en einstaklingar með rafræn skilríki geti sótt upplýsingar um sig sem vistaðar eru í rafrænni sjúkraskrá eða lyfjagagnagrunni.

Á efstu myndinni eru Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra, Svanhvít Jakobsdóttir forstjóri HH og Halldór Jónsson yfirlæknir Heilsugæslunni Glæsibæ og hér fyrir neðan er hluti þeirra sem voru viðstaddir opnunina.