Breskir sérnámslæknar á Íslandi

Mynd af frétt Breskir sérnámslæknar á Íslandi
01.04.2014

Hópur breskra sérnámslækna, sem leggur stund á sérnám í heimilislækningum, sótti íslenska kollega sína heim um síðustu helgi og fór allur hópurinn, um 50 manns, m.a. í vinnubúðir á Stykkishólmi, þar sem sérnámslæknarnir lærðu um erfið bakvandamál hjá Jósef Blöndal, yfirlækni á Heilbrigðisstofnun Vesturlands og samstarfsfólki hans. Samstarf sérnáms í heimilislækningum milli Íslands og Bretlands hefur staðið yfir í mörg ár og er breski hópurinn leiddur af lækninum John Salinsky.

„Upphaf þessa samstarfs má rekja til þess þegar Katrín Fjeldsted læknir var í námi í Bretlandi, þar sem einn af kennurum hennar var Salinsky,” segir Alma Eir Svavarsdóttir kennslustjóri í sérnámi í heimilislækningum og sérfræðingur í heimilislækningum við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. „Undanfarin 14 ár hafa bresku sérnámslæknarnir komið hingað og íslenskir sérnámslæknar farið utan, m.a. til Oxford, á Balint námskeið þar sem unnið er með samskipti lækna og sjúklinga. Það er virkilega ánægjulegt að við getum miðlað svona af þekkingu okkar lækna.”

Alma segir að áhugi á sérnámi í heimilislækningum hafi verið að aukast jafnt og þétt hér á landi á undanförnum árum. „Það er vonandi að þessi þróun haldi áfram og að námið haldi áfram að vera eftirsótt, “ segir Alma.