Nýtt skipurit Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins

Mynd af frétt Nýtt skipurit Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins
30.04.2013

Þann 1. maí 2013 tekur gildi nýtt skipurit Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. 

Með nýju skipuriti er starfsmannasvið lagt af, en til verður þróunarsvið (áður þróunarstofa) sem einnig annast framkvæmd starfsþróunar, en launaafgreiðsla og umsýsla er færð undir svið fjármála og rekstrar. Ný staða mannauðsstjóra verður til sem annast mun m.a. stefnumótun og þróun, samhæfingu, samskipti við stéttarfélög og stuðning við stjórnendur og starfsmenn.

Nýju skipuriti er m.a. ætlað að stuðla að þróun mannauðs og framförum í þjónustunni. Staða þróunarmála styrkist, m.a. með þátttöku framkvæmdastjóra þróunarsviðs í framkvæmdastjórn og nánari tengslum við aðrar skipulagseiningar í stjórnsýslu. Tengsl starfsþróunar, annarrar þróunar og fræðslu munu aukast með mannauðsstjóra sem samhæfingaraðila og þróunarsvið sem megin framkvæmdaaðila. Öll áætlanagerð og eftirfylgni verður sameinuð á fjármála- og rekstrarsviði.

Skipurit er tæki til að ná settum markmiðum og árangri og því er ætlað að þjóna starfsemi heilsugæslunnar og verkefnum á hverjum tíma. Þess er vænst að hið nýja skipurit styðji við hlutverk Heilsugæslunnar að veita íbúum höfuðborgarsvæðisins aðgengilega, samfellda og alhliða heilsugæsluþjónustu.

Í tengslum við þessar breytingar flytjast starfmenn Þróunarstofu sem nú tilheyra nýju Þróunarsviði yfir í Álfabakka 16 og Göngudeild sóttvarna flytur í staðinn í Þönglabakka 1.

Kristján G. Guðmundsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri þróunarsviðs heilsugæslunnar frá og með 1. maí nk. til fimm ára.

Kristján er yfirlæknir Heilsugæslunnar Glæsibæ og hefur gengt því starfi frá opnun hennar 2005. Kristján er cand. med. et chir. frá Háskóla Íslands og er með doktorspróf frá sama skóla, auk náms fyrir stjórnendur í heilbrigðisþjónustu. Kristján hefur m.a. starfað sem yfirlæknir heilsugæslustöðvanna á Siglufirði og Blönduósi, yfirlæknir Heilbrigðisstofnunarinnar Blönduósi og gengt starfi forstöðulæknis Heilsustofnunar NLFÍ.

Verkefni sem heyra undir framkvæmdastjóra þróunarsviðs eru eftirfarandi:

 • Þróunarmál og nýjungar í starfsemi
 • Gæða- og öryggismál
 • Vísindarannsóknir
 • Verkferlar, klínískar leiðbeiningar
 • Lyfjamál
 • Þróun og innleiðing árangursmælinga og mats
 • Staðtölur og upplýsingar um starfsemi
 • Starfsþjálfun og námskeiðahald
 • Fræðslumál
 • Kennsla
 • Bókasafn
 • Vefritstjórn
 • Sögunefnd

Svava Kristín Þorkelsdóttir hefur verið ráðin mannauðsstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Svava Kristín gengdi áður m.a. starfi deildarstjóra starfsþróunardeildar á mannauðssviði Landspítala. Svava er menntaður hjúkrunarfræðingur frá Háskóla Íslands og er með meistaragráðu í mannauðsfræðum frá sama skóla, auk náms í námskrárfræðum. Þá er hún með meistaragráðu í fjölskylduhjúkrun og kennslufræði frá háskóla í San Diego, Bandaríkjunum.

 

Verkefni sem  heyra undir mannauðsstjóra eru eftirfarandi:

 • Stefnumótun, skipulagning og samhæfing mannauðsmála
 • Stuðningur við stjórnendur og starfsmenn
 • Ráðningar og starfslok
 • Starfslýsingar
 • Starfsmannasamtöl
 • Starfsþróunarstefna
 • Starfsaðstaða,  vinnuvernd og heilsuefling
 • Kjaramál, stofnanasamningar og samskipti við stéttarfélög
 • Túlkun laga og kjarasamninga
 •  Jafnréttismál