Ellefu sérnámslæknar ráðnir til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins

Mynd af frétt Ellefu sérnámslæknar ráðnir til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins
18.08.2011

Aukinn áhugi á sérnámi í heimilislækningum.

Áhugi ungra lækna á heimilislækningum virðist fara vaxandi. Um það vitnar meðal annars fjöldi umsókna um nýjar sérnámsstöður í heimilislækningum sem nýlega voru auglýstar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Í byrjun sumars var auglýst eftir læknum sem hefðu áhuga á að hefja sérnám í heimilislækningum innan Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Þegar liggja fyrir 12 umsóknir og hafa 11 læknar nú þegar verið ráðnir í sérnámið en fleiri hafa sýnt náminu áhuga og því gæti hópurinn stækkað enn frekar áður en formlegt nám hefst í lok ágústmánaðar.

Fyrir eru 12 læknar í sérnámi í heimilislækningum á vegum Velferðarráðuneytisins en þær stöður sem nú bætast við eru kostaðar af Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Til að mæta þeim kostnaði hefur lausum stöðum sérfræðinga innan Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins verið breytt í sérnámsstöður í heimilislækningum. Sérnámsstöðurnar eru til þriggja ára en námið er skipulagt í samvinnu við Landspítala háskólasjúkrahús. Að þeim tíma loknum taka læknarnir þau tvö ár sem þá vantar til að ljúka fimm ára sérnámi í heimilislækningum ýmist hér heima eða erlendis.

Stolt af náminu

Alma Eir Svavarsdóttir, kennslustjóri sérnáms í heimilislækningum er að vonum ánægð með þann mikla áhuga sem læknar sýna sérnáminu ekki síst í ljósi þeirrar vöntunar sem er á heimilislæknum hér á landi um þessar mundir. Hún segir þennan fjölda gera þeim mögulegt að skipuleggja kennsluna enn betur og bjóða upp á agaðra nám en áður. „Við erum stolt af okkar sérnámi en þessi aukna ásókn þýðir hins vegar að það þarf aukið fjármagn til að sinna þessum verðandi heimilislæknum td. með námskeiðshaldi og formlegri kennslu.“

Alma Eir segir að með þessu geti Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins og Landspítali háskólasjúkrahús skipulagt mönnun og kennslu 3 ár fram í tímann þar sem Heilsugæslan taki á sig ábyrgð á að skipuleggja námsrammann og sérfræðingar í heimilislækningum á þeim stöðvum sem hýsa sérnámslækni taka að sér kennslu og leiðbeinanda- störfin. „Þetta er mjög ánægjulegt fyrir alla aðila en um leið mikil skuldbinding,“ segir Alma Eir Svavarsdóttir.

Vinsældir heimilislækninga að aukast

Margrét Ólafía Tómasdóttir umsjónardeildarlæknir er einn þeirra ungu lækna sem í dag stunda sérnám í heimilislækningum. Hún segir að á undanförnum árum hafi vinsældir náms í heimilislækningum verið að aukast. Bæði virðist hugmyndafræði heimilislækninga höfða til ungra lækna í dag en einnig skipti máli að almenn ánægja er með sérnámið sem boðið er upp á hér heima.

„Hjá þeim læknum sem ekki fara strax í framhaldsnám erlendis verður sífellt vinsælla að velja sérnámið í heimilislækningum hér heima. Kennsluprógrammið er mjög gott og fyllilega sambærilegt við það besta sem býðst annars staðar á Norðurlöndum,“ segir Margrét. Hún bætir því við að það henti mörgum að komast í sérnámsstöðu til þriggja ára þar sem framhaldsnámið er fléttað á markvissan og skipulegan hátt inn í starfið, frekar en að ráða sig á sjúkrahús þar sem aðeins er um eins árs stöður að ræða.