Snillingarnir - leiðbeinendanámskeið

  Snillingarnir - leiðbeinendanámskeið

  Mynd af frétt Snillingarnir - leiðbeinendanámskeið
  04.08.2011

  Þroska- og hegðunarstöð (ÞHS) Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins mun standa fyrir leiðbeinendanámskeiðum haustið 2011 fyrir þá sem hafa áhuga á að halda Snillinganámskeið fyrir börn með ADHD.

  Um Snillinganámskeiðið:  Á námskeiðinu, sem er 20 klukkustundir (2 tímar í senn, 2 skipti í viku í 5 vikur alls) læra börnin félagsfærni, tilfinningastjórnun, að leysa vandamál, aukna sjálfsstjórn og bætta vinnsluminnis- og athyglisfærni. Hvert námskeið er ætlað fyrir 6 börn á aldrinum 8-10 ára og verða alla vega 2 þjálfarar að stýra hverjum tíma. Námskeiðið er sett upp sem stöðvaþjálfun og umbunarkerfi er innbyggt inn í námskeiðið þannig að börnin vinna sér inn stig á hverri stöð. Námskeiðið var samið af sálfræðingum ÞHS og byggir á hugrænni-atferlismeðferð fyrir börn  og erlendum rannsóknum á þroskaferli barna. Frumathugun á árangri námskeiðsins meðal 29 barna á höfuðborgarsvæðinu, foreldra þeirra og kennara hefur leitt í ljós bætta félagsfærni, minni vanlíðan, aukna tilfinningastjórnun, minni athyglisvanda og bættan vinnsluhraða eftir námskeiðið.

  Um leiðbeinendanámskeiðið: Farið verður ítarlega í innihald námskeiðsins, framkvæmd og útfærslu þess, jákvæða hegðunarstjórnun og notkun tölvuforrits fyrir vinnsluminnisverkefni barnanna.

  Kröfur um menntun og hæfni þátttakenda: Leiðbeinendanámskeiðið er ætlað uppeldismenntuðu fagfólki. Reynsla af að vinna með börnum með sérþarfir er æskileg.

  Tímasetning:

  Leiðbeinendanámskeið A: Föstudaginn 23.september 2011, 9-16 (hádegishlé 12-13)

  Leiðbeinendanámskeið B: Föstudaginn 7.október 2011, 9-16 (hádegishlé 12-13)

  Staðsetning:

  Þroska- og hegðunarstöð (gengið inn á milli Nettó og Rauðakrossbúðarinnar Þönglabakkamegin)

  Þönglabakka 1, s: 585-1350

  Verð fyrir árið 2011:

  Kr. 15.000 pr. þátttakanda. Innifalið eru námskeiðsgögn fyrir leiðbeinendur. Aðgangur að tölvuforriti verður seldur sér hverjum stað sem ákveður að halda námskeiðið á kr. 3.900 fyrir tveggja ára aðgang.

  Skráning:

  Hægt er að skrá sig á heimasíðu Heilsugæslunnar

  Frekari upplýsingar fást hjá Dagmar Kr. Hannesdóttur sálfræðingi, S: 585-1361