Kostnaður vegna lyfjaávísana lækkaði árið 2010

Mynd af frétt Kostnaður vegna lyfjaávísana lækkaði árið 2010
18.05.2011

Nú birtast upplýsingar um lyfjaávísanir heilsugæslulækna sem starfa á þeim 15 heilsugæslustöðvum sem mynda Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins ásamt Heilsugæslunni í Salahverfi. Upplýsingarnar eru fengnar úr sjúkraskrárkerfinu Sögu þar sem lyfjaávísanirnar eru skráðar. Aður hafa verið birt gögn fyrir árin 2007, 2008 og 2009.

Tölur yfir verðmæti þeirra lyfja sem ávísað er, þ.e. hlutdeild Sjúkratrygginga ásamt hlutdeild sjúklinga, eru reiknaðar út frá smásöluverði lyfjanna eins og það var skráð í Sögukerfinu í desember. Þá er smásöluverð lausasölulyfja reiknað út frá heildsöluverði og áætlaðri álagningu. Að auki skal bent á að apótekið afgreiðir í ýmsum tilfellum ódýrara samheitalyf en það sem ávísað var, og svo kemur það stundum fyrir að sjúklingur leysir ekki út lyf sem hefur verið ávísað. Því geta rauntölur verið ívið lægri en hér kemur fram. Engu að síður er þarna hægt að fá gagnlegt yfirlit yfir þau lyf sem heilsugæslulæknar ávísa, hvaða lyfjaflokkar vega þyngst með tilliti til verðs og skilgreindra dagskammta.

Ágætur árangur náðist á árinu 2010 en heildarkostnaðurinn reyndist þá vera rúmir 3,65 miljarðar króna fyrir 16 stöðvar og 3,4 miljarðar fyrir 15 stöðvar HH samanborið við um 3,94 miljarða króna árið áður fyrir stöðvarnar 15. Kostnaðurinn lækkaði um 540 milljónir eða um 14% sem er á pari við styrkingu krónunnar á sama tímabili. Læknar Heilsugæslunnar hafa því áfram brugðist vel við þeim reglugerðarbreytingum sem fyrst tóku gildi árið 2009 og síðan einnig árið 2010, og höfðu það að markmiði að beina notkuninni yfir á ódýrari lyf með sambærilega verkun, þ.e. ekki líta einungis til samheitalyfja, heldur einnig til sambærilegra lyfja af sama flokki.  Vissulega geta sjúklingar áfram fengið þau lyf sem dýrari eru þurfi þeir á því að halda að mati læknis sem sendir þá umsókn til Sjúkratrygginga um greiðsluþátttöku vegna þeirra.

Breytingar hafa einnig orðið í öðrum lyfjaflokkum sem reglugerðarbreytingarnar taka ekki til, ýmist til hækkunar eða lækkunar, en heildarniðurstaðan sýnir áframhaldandi árangur af þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til.

Upplýsingarnar um lyfjaávísanirnar má finna hér á vefnum.