Heilsugæslan Efstaleiti 30 ára

Mynd af frétt Heilsugæslan Efstaleiti 30 ára
13.01.2011

Heilsugæslan Efstaleiti - áður Heilsugæslan Fossvogi hóf starfsemi í húsnæði Borgarspítalans 15. janúar 1981. Í upphafi störfuðu 6 starfsmenn við stöðina.

Starfsemin hefur aukist verulega á þessum 30 árum. Heildarfjöldi samskipta á síðasta ári var um 45 þúsund og á síðustu 30 árum eru samskiptin orðin 830 þúsund. Á stöðina eru nú skráðir rúmlega 8.000 einstaklingar. Starfsmenn stöðvarinnar í dag eru 26.

Stöðin er hverfisstöð og er henni ætlað að sinna íbúum á svæði sem markast af  Miklubraut í norðri, Fossvogi í suðri, Kringlumýrarbraut í vestri og Reykjanesbraut í austri.
 
Á stöðinni fer fram mjög fjölbreytt starfsemi - almenn heimilislæknaþjónusta, almenn hjúkrunarþjónusta, ungbarna- og mæðravernd, skólaheilsugæsla, bólusetningar fullorðinna, heilsuvernd aldraðra o.fl.

Þá eru læknar stöðvarinnar með kvöldvakt frá kl. 16:00-18:00 mánudaga til föstudaga, en fólk getur komið á vaktina án þess að hafa pantaðan tíma. Vaktin er fyrst og fremst ætluð til að sinna brýnum vandamálum, sem ekki geta beðið til næsta dags.

Markmiðið er að stöðin sé fyrsti viðkomustaður íbúa ef um heilsuvanda er að ræða. Leitast er við að veita samfellda þjónustu með hag einstaklingsins og fjölskyldunnar í huga.

Einnig fer fram á stöðinni viðamikil kennsla læknanema, hjúkrunarnema, ljósmæðranema, kandidata og lækna í sérnámi í heimilislækningum. Stöðin hefur nú um langt skeið verið miðstöð kennslu í sérnámi í heimilislækningum.
 
Starfsfólk heilsugæslunnar Efstaleiti óskar okkur öllum til hamingju með daginn.

Myndir:

  1. Heilsugæslan flutti í núverandi húsnæði í Efstaleiti 15. október 1999
  2. Afgreiðslan í Heilsugæslunni Fossvogi árið 1986
  3. Heimsókn breskra heimilislækna en stöðin tekur oft á móti erlendum hópum
  4. Útskrift Guðmundar Jörgensen sem sérfræðings í heimilislækningum. Gunnar Helgi Guðmundsson yfirlæknir er með honum á myndinni.