Hagræðing í þjónustu Þroska- og hegðunarstöðvar

Mynd af frétt Hagræðing í þjónustu Þroska- og hegðunarstöðvar
04.01.2011

Eins og mörgum er kunnugt hefur beiðnum til Þroska- og hegðunarstöðvar (ÞHS) fjölgað verulega á síðustu tveimur árum. Þrátt fyrir stöðuga viðleitni til ýmiss konar hagræðingar í vinnubrögðum, hefur þetta óhjákvæmilega leitt til mikillar fjölgunar á biðlista og lengingar biðtíma eftir þjónustu. Nú um áramót taldi biðlisti stöðvarinnar 170 börn (60 sem bíða eftir frumgreiningu og 110 sem bíða eftir nánari greiningu) og ástand mála því í raun þegar orðið óásættanlegt fyrir skjólstæðinga.

Því var nú í árslok 2010 enn farið í ítarlega skoðun á öllum hugsanlegum möguleikum til að bregðast við stöðunni og til umræðu kom m.a. tímasparnaður við greiningarferlið, fækkun námskeiða og hefting inntöku nýrra tilvísana. Niðurstaðan varð sú að af mörgum slæmum kostum, væri skásta leiðin sú að skerða þann tíma sem nú fer í að halda skilafundi með skólafólki í kjölfar greiningar leik- og grunnskólabarna.

Ákvörðun hefur verið tekin um að vegna barna sem koma til greiningar á ÞHS frá ársbyrjun 2011 verði ekki haldnir skilafundir með kennurum og skólaráðgjöfum nema í sérstökum undantekningartilfellum. Slíkar undantekningar verður hægt að gera að frumkvæði ÞHS eða viðkomandi skóla þegar um sérlega alvarleg tilvik er að ræða.

Eftir sem áður verða haldin skilaviðtöl með foreldrum hvers barns eftir að greiningarferli er lokið og skilaskýrslur verða strax í kjölfarið sendar skólum og ráðgjafarskrifstofum skóla. Áætlað er að ýmsar gagnlegar ráðleggingar fyrir foreldra og kennara (s.s. Hagnýt ráð o.fl.) verði í auknum mæli aðgengilegar á netinu fyrir þá sem áhuga hafa.

Það er von okkar að þetta fyrirkomulag mælist ekki illa fyrir hjá samstarfsaðilum og verði ekki til að skerða þjónustu barna með frávik í þroska eða hegðun. Ákvörðunin verður endurskoðuð á miðju ári og fyrr ef ástæða er til