Reksturinn jákvæður á fyrri helmingi ársins

Mynd af frétt Reksturinn jákvæður á fyrri helmingi ársins
25.08.2010

Rekstur Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins varð jákvæður á fyrstu sex mánuðum ársins 2010. Samtals námu tekjur stofnunarinnar, að meðtöldum fjárveitingum ríkisins, á þessum mánuðum um 2,3 milljörðum króna, en gjöldin urðu 40 milljónum króna lægri. Munurinn nam um 1,7% af veltu. 

Útgjöld HH urðu 135 milljónum króna lægri á fyrri helmingi 2010 en þau voru á sama tíma í fyrra. Þessi lækkun útgjalda, um 5,6%, er aðalskýringin á því jafnvægi sem náðst hefur í rekstri stofnunarinnar á þessu ári. Tekjur HH urðu hins vegar 17 milljónum lægri á fyrri helmingi þessa árs en á sama tíma í fyrra.

Þetta þýðir að verulegur umsnúningur hefur orðið í rekstri HH á þessu ári. Um mitt árið 2009 var rekstur HH neikvæður um 78 milljónir króna. Heildartap á árinu varð um 165 milljónir kr.

Á undanförnum misserum hefur verið unnið að margvíslegum hagræðingaraðgerðum innan HH og hafa starfsmenn tekið virkan þátt í aðgerðunum. Í byrjun þessa árs efndi stofnunin til 30 hagræðingaraðgerða sem höfðu áhrif á önnur gjöld en launagjöld. Þá völdu hópar starfsmanna nokkra tugi viðbótaraðgerða, í samstarfi við Capacent ráðgjöf, sem nú eru til frekari skoðunar. Framkvæmdastjórn vinnur, eins og fram hefur komið í fjölmiðlum, að tillögum um breytingar á skipulagi heilsugæslustöðva sem eiga, auk þess að efla einstakar stöðvar, að leiða til frekari sparnaðar í rekstri og koma til móts við þann niðurskurð sem boðaður hefur verið á fjárveitingum stofnunarinnar á næsta ári.