Kvenfélagið í Kjósarhreppi gefur heyrnarmæli á 70 ára afmæli sínu

Mynd af frétt Kvenfélagið í Kjósarhreppi gefur heyrnarmæli á 70 ára afmæli sínu
17.03.2010

Kvenfélagið í Kjósarhreppi er 70 ára um þessar mundir og ákveðið var í tilefni af afmælinu að gefa Heilsugæslunni Mosfellsumdæmi gjöf sem myndi nýtast í ung- og smábarnavernd. Sunnudaginn 14. mars tók Hrafnhildur Halldórsdóttir yfirhjúkrunarfræðingur stöðvarinnar við gjafabréfi fyrir Senti heyrnarmæli.

Hrafnhildur fékk Guðrúnu Gísladóttur framkvæmdastjóra Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands til að aðstoða við velja heyrnarmæli sem hentaði vel fyrir mælingar hjá ungum börnum. Guðrún var nýbúin að fá til prufu fullkominn Senti heyrnarmæli sem varð fyrir valinu. Hann er nú á leið til stöðvarinnar.

Heilsugæslan Mosfellsumdæmi verður því fyrst allra á landinu til að eignast svona mæli. Starfsfólk ung- og smábarnaverndar á stöðinni er spennt að byrja að nota mælinn og kann Kvenfélaginu bestu þakkir fyrir.

Senti heyrnarmælirinn er ætlaður börnum frá þriggja og hálfs árs aldri. Mælingin fer þannig fram að barnið heldur á mælinum og velur dýramynd á snertiskjá. Þegar barnið heyrir dýrahljóð snertir það aftur dýramynd. Þetta vekur áhuga barnsins og eykur samvinnu í prófuninni.

Þó mælirinn sé sérstaklega gerður fyrir börn er auðvelt að breyta mælingarumhverfinu þannig að það henti fyrir fullorðna.