Forvarnir í læknisfræði - Góðmennska á villigötum?

Mynd af frétt Forvarnir í læknisfræði - Góðmennska á villigötum?
21.09.2009

Almenningi er boðið í Vísindakaffi í aðdraganda Vísindavöku, þar sem fræðimenn munu kynna viðfangsefni sín. Markmiðið með Vísindakaffikvöldunum er að færa vísindin nær fólki og kynna það rannsóknastarf sem stundað er í landinu á aðgengilegan hátt.

Rannsóknamiðstöð Íslands, RANNÍS, stendur fyrir Vísindavöku en hún er haldin samtímis í helstu borgum Evrópu í tengslum við Dag vísindamannsins.

Forvarnir í læknisfræði - Góðmennska á villigötum?
Fimmtudaginn 24. september

Dr. Jóhann Ágúst Sigurðsson yfirlæknir Þróunarstofu heilsugæslunnar og Dr. Linn Getz trúnaðarlæknir á LSH og dósent við læknadeild Norwegian University of Science and Technology, velta upp spurnigunum um gildi forvarna.

Forvarnarstarf og heilsuvernd eru af hinu góða. Hins vegar hefur verið varað við því í virtum fagtímaritum á undanförnum árum að ýmsar heilsutengdar aðgerðir í nafni forvarna hafa verið gerðar að söluvöru og þar með heilbrigðisþjónusta að markaðstorgi þar sem megin áhersla er lögð á sölu á þjónustu til hinna frísku á kostnað þeirra veiku. Í slíkum tilvikum er gert meira úr vandamálinu en efni standa til og boðið upp á úrlausnir sem geta verið kostnaðarsamar, vafasamar eða siðferðilega umdeildar.

Þessi aðferð hefur verið kennd við ,,völd góðmennskunnar" (Power of Goodness), en með því hugtaki er vísað til þeirra valda eða áhrifa sem til dæmis heilbrigðisstéttir geta fengið með því að telja fólki trú um að aðgerðir þeirra og úrlausnir séu alltaf til góðs. Líkanarannsóknir á fjölmörgum klíniskum leiðbeiningum í læknisfræði benda sterklega til þess að of mikið sé gert úr vandamálinu í þá veru að næstum allir fullorðnir verði skilgreindir sem sjúkir og þurfi að vera undir stöðugu eftirliti lækna. Hvaða afleiðingar hefur slíkt ofmat á þjóðarsálina, útgjöld til heilbrigðismála, lyfjanotkun, mannafla, verkaskiptingu heilbrigðisstétta og heilsu fólks svo eitthvað sé nefnt. Lausnirnar gagnvart einstaklingum felast m.a. í að upplýsa fólk sem mest um kosti og galla forvarna, þannig að það geti tekið virkan þátt í að hafa árif á heilsu sína.

Vísindakaffin verða haldin á Súfistanum í Iðuhúsinu Lækjargötu 2, 21., 22., 23. og 24. september kl. 20:00-21:30 hvert kvöld. Þar munu vísindamenn á ýmsum fræðasviðum kynna rannsóknir sínar sem allar eiga það sameiginlegt að vera áhugaverðar fyrir fólk á öllum aldri. Gestir fá tækifæri til að spyrja og taka þátt í umræðum og komast þannig að því hvernig störf vísindamanna hafa áhrif á daglegt líf okkar allra. Stjórnandi Vísindakaffikvöldanna er Davíð Þór Jónsson.