Breytingar á ung- og smábarnavernd

Mynd af frétt Breytingar á ung- og smábarnavernd
09.09.2009

Landlæknisembættið hefur gefið út handbókina Ung- og smábarnavernd - Leiðbeiningar um heilsuvernd barna 0-5 ára. Handbókin er ætluð fagfólki en er einnig mjög gagnleg fyrir foreldra ungra barna. Eingöngu er um rafræna útgáfu að ræða og er hún á vef Landlæknisembættisins.

Í grundvallaratriðum byggir handbókin á fyrri handbók. Auk fyrri texta sem var endurskoðaður hefur mörgum nýjum köflum verið bætt við. Endurskoðun handbókarinnar tók langan tíma og fjölmargir aðilar komu að henni, á einn eða annan hátt. Landlæknisembættið hefur fagráð á sviði ung- og smábarnaverndar og veitti það ráðgjöf við endurskoðunina. 

Sesselja Guðmundsdóttir sviðsstjóri ung- og smábarnaverndar, Þróunarstofu heilsugæslunnar (áður Miðstöð heilsuverndar barna) og Geir Gunnlaugsson fyrrverandi forstöðumaður Miðstöðvar heilsuverndar barna höfðu umsjón með endurskoðuninni fyrir hönd Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins en Anna Björg Aradóttir yfirhjúkrunarfræðingur fyrir hönd Landlæknisembættisins.

Ein mikilvægasta breytingin frá fyrri Handbók er breyting á lykilaldurskoðun barna frá 3½ árs aldri til 2½ árs aldurs og svo 5 ára skoðun í 4 ára skoðun.

Einnig verða tekin í notkun ný tæki til að meta þroska barna. Þau eru PEDS – Mat foreldra á þroska barna og BRIGANCE þroskaskimun. Námsmatstofnun hefur unnið að þýðingu, staðfæringu og forprófun á tækjunum í samstarfi við Landlæknisembættið og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

PEDS – Mat foreldra á þroska barna

PEDS (Parent´s Evaluation of Developemental Status) er spurningalisti þar sem foreldrar geta lýst áhyggjum sínum varðandi málþroska, heyrn, fín- og grófhreyfingar, hegðun og almenna þroskaframvindu barns síns. Til að byrja með er mælt með að nota PEDS við skoðun 18 mánaða, 2½ árs og 4 ára barna. Hægt er þó að nota PEDS frá fæðingu til 8 ára aldurs.

BRIGANCE þroskaskimun

BRIGANCE þroskaskimun felst í því að hjúkrunarfræðingur leggur verkefni fyrir barnið. Skimunin nær til margra þroskaþátta og skiptist í þrjú svið: skólafærni, samskiptafærni og hreyfifærni. Hún mælir fín- og grófhreyfingar, málnotkun, orðaforða og málskilning, forlestrarfærni, magnhugtök og þekkingu á persónulegum högum. BRIGANCE þroskaskimun verður lagt fyrir 2½ árs og 4 ára gömul börn samhliða PEDS-matinu þannig að greina megi raunveruleg frávik með meiri nákvæmni.

Það er skoðun Landlæknisembættisins að sú ákvörðun að taka upp þessi tvö skimunartæki styðjist við bestu þekkingu á þroska barna og þeim vandamálum sem íslensk börn eiga við að etja. Ung- og smábarnavernd nær til allra barna og foreldra þeirra og er lykilþjónusta til að styðja við og efla heilsu og velferð barna.