Heilsugæslan Árbæ er komin í nýtt og langþráð húsnæði

Mynd af frétt Heilsugæslan Árbæ er komin í nýtt og langþráð húsnæði
26.03.2009


 

 

 

 

 




 

Fyrsta heilsugæslustöðin í Reykjavík, Heilsugæslan Árbæ, hóf starfsemi sína 1. apríl, 1977 og hefur lengst af verið til húsa að Hraunbæ 102 D-E en flutti síðastliðið sumar í tímabundið leiguhúsnæði að Höfðabakka í Reykjavík. Í desember sl. flutti starfsemin loks í nýtt leiguhúsnæði að Hraunbæ 115 og móttaka hófst þar þann 22. desember 2008.

Fyrsta skóflustungan að húsinu var tekin í nóvember 2007 og þótti mikil bjartsýni að það yrði tilbúið ári síðar. Húsið sem er byggt af Faghúsum er vel hannað og mikill metnaður auðsýnilega lagður í allan frágang. Arkitekt hússins er Pétur Örn Björnsson.

Föstudaginn 13. mars 2009 var húsnæðið formlega opnað af heilbrigðisráðherra Ögmundi Jónassyni. Forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins Svanhvít Jakobsdóttir bauð gesti velkomna og þakkaði starfsmönnum stöðvarinnar ótrúlega þolinmæði á liðnum árum í ófullkominni aðstöðu. Þá óskaði hún íbúum þjónustusvæðisins til hamingju með að geta nú sótt heilbrigðisþjónustu í þetta fallega hús um ókomin ár.

Heilbrigðisráðherra og borgarstjóri fluttu síðan ávörp en stúlkur úr barnakór Árbæjarskóla söng nokkur lög undir stjórn Önnu Maríu Bjarnadóttur, kórstjóra. Fyrir athöfnina lék Kvartettinn Reginn á strokhljóðfæri.

Að lokum var gestum boðið að ganga um húsnæði Heilsugæslunnar. Á efri hæðinni er meðal annars móttaka, læknastofur, aðgerðarstofur, kennslustofur, rannsóknarstofa og skiptistofa auk skoðunarherbergja ungbarna og verðandi mæðra, skrifstofur og skoðunarherbergi hjúkrunarfræðinga og annarra starfsmanna.

Á neðri hæð hússins norðan megin er kaffistofa og samliggjandi fundaherbergi sem jafnframt nýtist til námskeiðahalds á vegum starfsmanna.

Sunnan megin á 1. hæð er hverfisstöð Félagsþjónustu Reykjavíkurborgar og Árbæjarapótek.

Heilsugæslan Árbæ er hverfisstöð og er fyrst og fremst ætlað að þjóna íbúum Árbæjar, Seláss, Ártúnsholts, Grafarholts og Norðlingaholts. Á þjónustusvæði Heilsugæslu Árbæjar eru sex grunnskólar sem stöðin þjónar. Einnig eru 11 leikskólar á svæðinu sem eiga gott samstarf við starfsmenn stöðvarinnar. Skráning á heilsugæslustöðina fer fram á stöðinni.

Starfsmenn stöðvarinnar eru um 35, þar af eru 7 heilsugæslulæknar, sérnámslæknir, 2 barnalæknar, hjúkrunarfræðingar, ljósmæður, sálfræðingur, sjúkraliði og ritarar.

Í afgreiðslu stöðvarinnar taka móttökuritarar við tímapöntunum, gefa almennar upplýsingar um starfsemi stöðvarinnar og koma áríðandi skilaboðum til starfsfólks. Nauðsynlegt er að láta móttökuritara vita, þegar mætt er í pantaðan tíma og einnig að tilkynna forföll, ef fólk kemst ekki í pantaðan tíma.

  • Yfirlæknir stöðvarinnar er Gunnar Ingi Gunnarsson
  • Yfirhjúkrunarfræðingur stöðvarinnar er Ingibjörg Sigmundsdóttir
  • Skrifstofustjóri er Erna Ágústsdóttir