Sérhæfð heimaþjónusta fyrir veika aldraða

Mynd af frétt Sérhæfð heimaþjónusta fyrir veika aldraða
28.09.2006

Myndin er af undirritun samkomulags milli Landspítala - háskólasjúkrahúss og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins um sérhæfða heimaþjónustu fyrir veika aldraða.
Frá vinstri: Magnús Pétursson forstjóri LSH, Guðmundur Einarsson forstjóri HH, Þórunn Ólafsdóttir hjúkrunarforstjóri HH og Anna Stefánsdóttir framkvæmdastjóri hjúkrunar á LSH. Sjá samkomulagið

Sérhæfð heimaþjónusta fyrir veika aldraða, í samstarfi Landspítala - háskólasjúkrahúss (LSH) og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins
 (HH), hefur störf í byrjun október og er stefnt að því að fyrstu sjúklingar fái þjónustu þá.
Með þjónustunni er leitast við að mæta óskum aldraðra um að geta dvalið lengur í heimahúsi þrátt fyrir veikindi og um leið að færri sjúklingar í hópi aldraðra þurfi að bíða eftir annarri þjónustu.

Sérhæft teymi hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða, félagsliða, öldrunarlækna, sjúkraþjálfara, iðjuþjálfa og sérfræðings í öldrunarhjúkrun, mun sinna þessari þjónustu.

Hlutverk teymisins er að stýra og skipuleggja ofangreinda þjónustu, ásamt því
að veita þverfaglega/fjölþátta meðferð og umönnun í heimahúsi.

Tilgangur teymisins er að auka þjónustu við fjölveika aldraða og gera þeim kleift að dvelja lengur heima þrátt fyrir veikindi.
Meðferð og umönnun sjúklings fer fram heima hjá honum í samvinnu við fjölskyldu og önnur úrræði sem eru í boði fyrir aldraða.

Gert er ráð fyrir því að sérhæfð heimaþjónusta fyrir veika aldraðra nái að jafnaði til 20 sjúklinga á hverjum tíma.

Þetta er nýjung í meðferð og eftirfylgd fjölveikra aldraðra.
Þjónustunni er hleypt af stokkunum að tilstuðlan heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins. Ráðuneytið bæði hvatti til þessarar nýbreytni og veitti henni fjárhagslegan stuðning.

Samningur um sérhæfða heimaþjónustu 27. sept. 2006

Siv Friðleifsdóttir heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra
setti starfsemina formlega af stað við athöfn
í anddyri Landspítala Fossvogi miðvikudaginn 27. september 2006.