Rekstur Heilsugæslunnar í jafnvægi árið 2005

Mynd af frétt Rekstur Heilsugæslunnar í jafnvægi árið 2005
10.07.2006

Heilsugæslan á öllu höfuðborgarsvæðinu var rekin með 52 milljóna kr. afgangi miðað við fjárheimildir á árinu 2005. Samsvarar það um 1,5% af heildarútgjöldum stofnananna á árinu, en útgjöldin námu um 3,540 milljónum kr. 

Um áramótin síðustu voru heilsugæslustofnanir í Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði, Garðabæ, Mosfellsumdæmi og Seltjarnarnesi sameinaðar í eina stofnun, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Árið 2005 voru þær reknar í þrennu lagi og undir 7 fjárlagaliðum, en eftir sameininguna falla þær undir eitt fjárlaganúmer. 

Á árinu 2005 var undirbúin opnun tveggja nýrra heilsugæslustöðva, Heilsugæslunnar Glæsibæ og Heilsugæslunnar Fjörður, sem opnaðar voru í byrjun árs 2006. Þá flutti heilsugæslustöðin sem verið hafði í Fannborg í nýtt húsnæði á brúnni yfir gjána í Kópavogi og heitir nú Heilsugæslan Hamraborg.