Grunnskólabörn með langvinnan heilsuvanda: Greining á þörf fyrir heilbrigðisþjónustu

Mynd af frétt Grunnskólabörn með langvinnan heilsuvanda: Greining á þörf fyrir heilbrigðisþjónustu
13.01.2006

Nýútkomin er athyglisverð skýrsla starfshóps Miðstöðvar heilsuverndar barna: Grunnskólabörn með langvinnan heilsuvanda: Greining á þörf fyrir heilbrigðisþjónustu.

Samantekt:
Stór hluti íslenskra grunnskólabarna með langvinnan heilsuvanda stundar nám við almenna skóla og er það er m.a. hlutverk heilsugæslunnar að sinna heilsuvernd þessara skólabarna. Markvissa stefnu í málefnum barna með langvinnan heilsuvanda hefur þó skort innan heilsugæslu skólanna.
Markmið þessa verkefnis var að greina eðli og umfang langvinns heilsuvanda meðal grunnskólabarna og þá þjónustu sem er í boði fyrir þau. Til að sinna þessu verkefni var skipaður þverfaglegur starfshópur innan Miðstöðvar heilsuverndar barna. Í hópnum voru tveir hjúkrunarfræðingar, iðjuþjálfi, barnalæknir og sálfræðingur.
Fengnar voru upplýsingar um fjölda barna með langvinnan heilsuvanda í grunnskólum á landsvísu ásamt skiptingu eftir sjúkdómsflokkum og aldri. Könnuð voru viðhorf starfsfólks heilsugæslu í skólum til þjónustu sem veitt er börnum með langvinnan heilsuvanda. Einnig voru kortlagðar hugmyndir og/eða væntingar hagsmunahópa og annarra fagaðila sem að málefnum þessara barna koma, til heilbrigðisþjónustu í grunnskólum.
Í ljós kom að tæpur fimmtungur grunnskólabarna á í slíkum vanda og stærsti hópurinn (6%) eru börn með athyglisbrest með ofvirkni. Þau og of þung börn eru talin í mestri þörf fyrir aukna þjónustu skólaheilsugæslunnar. Vísbendingar komu fram um verri mætingu í skóla vegna veikinda hjá innflytjendabörnum og skólaheilsugæslan gæti e.t.v. sinnt þeim betur.
Brotalöm er talin á boðleiðum milli kerfa og stofnana og þörf fyrir samvinnu fleiri faghópa en nú er um þjónustu skólaheilsugæslunnar við börn með langvinnan heilsuvanda kom skýrt fram.
Niðurstöður þarfagreiningarinnar voru lagðar til grundvallar við mótun hugmynda að bættri þjónustu við börn með langvinnan heilsuvanda í grunnskólum.