Heilsugæslan Efstaleiti 25 ára

Mynd af frétt Heilsugæslan Efstaleiti 25 ára
13.01.2006

Heilsugæslan Efstaleiti, áður Heilsugæslan Fossvogi, hóf starfsemi í húsnæði Borgarspítalans 15. janúar 1981. Í upphafi störfuðu 6 starfsmenn við stöðina. Starfsemin hefur aukist verulega á þessum 25 árum. Heildarfjöldi samskipta  á síðasta ári voru um 33 þúsund og á síðustu 25 árum um 600 þúsund. Á stöðina eru nú skráðir  tæplega 8000 manns. Starfsmenn stöðvarinnar í dag eru 26.

Stöðin er hverfisstöð og er ætlað að sinna sjúklingum á svæði sem markast af  Miklubraut í norðri, Fossvogi í suðri, Kringlumýrarbraut í vestri og Reykjanesbraut í austri.

Á stöðinni fer fram mjög fjölbreytt  starfsemi, almenn heimilislæknisþjónusta, almenn hjúkrunarþjónusta, ungbarna- og mæðravernd, skólaheilsugæsla,  bólusetningar fullorðinna, heilsugæsla eldri borgara o.fl. Þá eru læknar stöðvarinnar með kvöldvakt frá kl. 16 -18 mánudaga til fimmtudaga, en sjúklingar geta komið á vaktina án þess að hafa pantað tíma. Vaktin er fyrst og fremst ætluð til að sinna brýnum vandamálum, sem ekki geta beðið til næsta dags.

Einnig fer fram á stöðinni viðamikil kennsla læknanema,  hjúkrunarnema, kandidata og námslækna í heimilislækningum.

Markmiðið er að stöðin sé fyrsti viðkomustaður sjúklinga á þjónustusvæðinu ef um heilsuvanda er að ræða. Leitast er við að veita samfellda þjónustu með hag einstaklingsins og fjölskyldunnar í huga.

Við óskum okkur öllum til hamingju með daginn.

Starfsfólk Heilsugæslunnar Efstaleiti.