Samningur Alþjóðahússins ehf. og Heilsugæslunnar

Mynd af frétt Samningur Alþjóðahússins ehf. og Heilsugæslunnar
10.01.2006

Nú nýverið gerðu Alþjóðahúsið ehf. og Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu með sér samstarfssamning um þjónustu við innflytjendur.

Tilgangur þessa samstarfs er að tryggja að innflytjendur njóti öryggis og traustrar þjónustu til jafns við aðra meðlimi samfélagsins og bæta þjónustu til sjúklinga af erlendum uppruna. Samstarfið tekur sérstaklega til túlka- og þýðingarþjónustu og til fræðslu- og kynningarmála, ásamt fleiri verkefnum.

Samningurinn felur m.a. í sér samstarf á sviði túlka- þýðingarþjónustu, en á vegum Alþjóðahússins eru starfandi um 200 túlkar, sem túlka á yfir 50 tungumál alls. Alþjóðahúsið og Heilsugæslan munu starfa saman að frekari uppbyggingu túlka- og þýðingarþjónustunnar, sem miðar að því að auka gæði túlkaþjónustu, færni og fagmennsku túlka, þekkingu heilbrigðisstarfsmanna á notkun túlkaþjónustu og frekari þjónustu með hag sjúklinga að leiðarljósi. Ennfremur muni Heilsugæslan og Alþjóðahúsið starfa saman að því að kynna túlkaþjónustu fyrir sjúklingum, sem gætu þurft á henni að halda.

Skoðað verður að setja upp á vegum Alþjóðahússins almenn fræðslunámskeið fyrir starfsmenn Heilsugæslunnar, s.s. á sviði menningarfærni og um þjónustu í fjölmenningarumhverfi. Jafnframt verða sérstaklega skoðaðir möguleikar á þátttöku í evrópskum samstarfs og rannsóknarverkefnum sem koma að gagni fyrir báða aðila samkomulagsins.