Sími 1700 - Upplýsingamiðstöð Heilsugæslunnar

Mynd af frétt Sími 1700 - Upplýsingamiðstöð Heilsugæslunnar
13.01.2006

Í Upplýsingamiðstöð Heilsugæslunnar er svarað í síma 1700 frá kl. 8:00 til 17:00, mánudaga til föstudaga.

Reyndir hjúkrunarfræðingar sitja við símann á Heilsuverndarstöðinni í Reykjavík og veita ráðgjöf og upplýsingar um heilsugæslu í víðum skilningi.

Upplýsingamiðstöð Heilsugæslunnar er einkum ætluð þeim sem ekki vita eða eru í vafa um hvert þeir geta leitað eftir ráðgjöf.

Þetta á einkum við þá íbúa höfuðborgarsvæðisins sem ekki eru með skráðan heimilislækni eða telja sig ekki hafa heimilislækni. Einnig geta gestir á höfuðborgarsvæðinu nýtt sér þessa þjónustu, svo sem námsmenn af landsbyggðinni, ferðamenn og aðrir sem þar eru tímabundið.

Leiðbeint er um almenn úrræði í heilbrigðiskerfinu vegna veikinda, forvarna og réttinda sjúklinga.

Minnt er á að þessi þjónusta kemur ekki í stað upplýsingaþjónustu sem þegar er veitt á heilsugæslustöðvum og deildum Heilsugæslunnar Samkvæmt stefnumótun Heilsugæslunnar veita heilsugæslustöðvar öllum íbúum á sínu svæði þjónustu. Upplýsingamiðstöð Heilsugæslunnar á að auka þjónustu við borgarana og auðvelda þeim að fá upplýsingar.

Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra opnaði Upplýsingamiðstöðina formlega 29. apríl - við athöfn á Heilsuverndarstöð Reykjavíkur, þar sem miðstöðin er til húsa. Miðstöðin tók svo til starfa 2. maí.